Metumferð á höfuðborgarsvæðinu

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu í mars jókst um ríflega átta prósent frá sama mánuði fyri ári síðan. Þetta er metumferð og reyndist umferðin 7,5 prósentum meiri en í fyrra metári sem var árið 2019. Umferðin fyrstu mánuði ársins hefur aukist um heil 11 prósent og er það einnig met fyrir árstímann að því er fram kemur í tölum frá Vegagerðinni.

Líkt og á Hringvegi jókst umferð mikið á höfuðborgarsvæðinu í mars miðað við sama mánuð á síðasta ári, en aukningin nam rúmlega 8%. Þessi aukning varð til þess að nýtt met var slegið í umferðinni í mars, yfir lykil mælisnið á höfuðborgarsvæðinu. Umferðaraukningin nú reyndist 7,5% meiri en fyrra met frá árinu 2019, en að jafnaði fóru tæplega 181.000 ökutæki á sólarhring yfir mælisniðin þrjú.

Hlutfallslega jókst umferð mest yfir mælisnið ofan Ártúnsbrekku eða um tæp 11% en minnst jókst umferð yfir mælisnið á Hafnarfjarðarvegi eða um rúmlega 6%. Nú hefur umferð aukist um tæp 11%, frá áramótum og er þetta mesta aukning, sem mælst hefur miðað við árstíma, síðan þessi samantekt hófst árið 2005.

Umferð jókst í öllum vikudögum en hlutfallslega mest á laugardögum, eða um rúmlega 12%, en minnst á þriðjudögum, eða um rúmlega 5%. Mest var ekið á föstudögum, í nýliðnum mars, og minnst á sunnudögum.