MG er upprisinn

http://www.fib.is/myndir/MG-TF-L500.jpg
MG TF L500.

Hinn sígildi breski sportbíll MG er aftur kominn í framleiðslu í gömlu verksmiðjunni í Longbridge í Bretlandi. Framleiðslunni þar var hætt árið 2005 þegar MG-Rover varð gjaldþrota og kínverska bílaverksmiðjan Nanjing Automobile keypti þrotabúið. Síðan hefur hinn gamalkunni sportbíll verið framleiddur í Suður Kína. Þegar kaupin áttu sér stað hétu Kínverjar því að taka aftur upp framleiðslu í Longbridge og það hafa þeir nú staðið við.

Sá MG sem nú er tekinn að renna af samsetningarfæriböndunum í Longbridge er í grunninn gamli MG F. Hann kom fyrst fram fullskapaður árið 1995. Endurbætt og uppfærð útgáfa sem nefndist TF kom svo fram sjö árum síðar. Þessi nýjasta gerð bílsins sem nú er komin í framleiðslu nefnist TF LE 500. Ýmsar útlitsbreytingar hafa verið gerðar frá TF gerðinni gömlu en innviðirnir eru nánast þeir sömu og áður. Ekki er hægt að segja að um sé að ræða stórframleiðslu því að einungis 500 bílar verða byggðir – í bili að minnsta kosti.

Breskir bílafjölmiðlar fagna þessu talsvert enda er MG merkið talsvert fyrirferðarmikið í breskri bílasögu. Nýi bíllinn er bærilega búinn sportbíll, eða Roadster eins og slíkir bílar nefnast. Hann er leðurklæddur að innan með hörðum niðurfellanlegum toppi.  Vélin er í grunninn hin gamla svonefnda Rover K vél. Hún er 1,8 l, 135 ha. og sögð eyða 7,9 l af bensíni á hundraðið og gefa frá sér 185 grömm af CO2 á kílómetrann.

Síðan Nanjing Automobile keypti MG hefur annað kínverskt bílafyrirtæk, SAIC  keypt Nanjing og þar með eignast MG. SAIC vinnur nú að öðrum „breskum“ sportbíl – Roewe 550 sem einnig er í grunninn MG. Þessi bíll á að koma á markað innan næstu 18 mánaða. Hvort sá bíll og ný kynslóð  MG TF verði settir saman í Longbridge hefur ekki verið gefið upp.