MG nýtt bílamerki á Íslandi

Hið sögufræga bílamerki MG sem margir þekkja frá gamalli tíð hefur formlega innreið sína á íslenska bílamarkaðinn síðar í þessum mánuði þegar bílaumboðið BL kynnir hinn nýja framhjóladrifna og rafknúna sportjeppa MG ZS EV í sýningarsalnum við Sævarhöfða. Hlutdeild umhverfismildra bíla hér á landi fer sífellt vaxandi á markaðnum og með MG ZS EV býðst almenningi nýr og spennandi kostur til að velja úr í flóru rúmgóðra og velbúinna rafbíla hjá BL.

MG ZS EV er fimm manna framhjóladrifinn og ríkulega búinn sportjeppi sem fáanlegur verður til afhendingar strax í tveimur gerðarútfærslum; Comfort og Luxury. Verðið hjá BL fyrir nýjan MG ZS EV Comfort verður kr. 3.990.000 og Luxury kr. 4.390.000 sem gerir MG ZS EV þann nýja rafbíl sem fáanlegur er á samkeppnishæfasta verðinu í sínum stærðarflokki á íslenska markaðnum. Ísland er eitt 9 Evrópulanda þar sem MG er nú fáanlegur.

Frumsýndur laugardaginn 27. júní

MG ZS EV Comfort og Luxury verða frumsýndir í sýningarsal BL við Sævarhöfða laugardaginn 27. júní milli kl. 12 og 16. Auk sýningarbíla verða reynslubílar til taks fyrir þá sem vilja prófa þennan nýja rafknúna og rúmgóða sportjeppa. Við sama tækifæri verður einnig íslensk heimasíða merkisins tilbúin hjá BL.

Þangað til geta áhugasamir kynnt sér bílinn, liti og útfærslur á heimasíðu MG, www.mgmotor.is.