Mikið hefur áunnist í samgönguöryggi á undanförnum áratugum

Fjölmenni sótti ráðstefnu innviðaráðuneytisins um öryggi í samgöngum, sem haldin var þriðjudaginn 6. júní, undir yfirskriftinni Á réttri leið. Það var samdóma álit fyrirlesara að með samtakamætti, fræðslu og markvissri stefnumótun hefði tekist að stórbæta öryggi í samgöngum á síðustu áratugum. Öryggisáætlanir fyrir umferð, siglingar og flug miði stöðugt að því að fækka slysum með markvissum aðgerðum og mælikvörðum sem gera okkur kleift að læra af reynslunni og meta árangur.

Góðan árangur má ekki hvað síst þakka öflugri forystu sem fært hefur Ísland í hóp þeirra bestu. Þar er fremst í flokki Ragnhildur Hjaltadóttir sem nýverið lét af störfum sem ráðuneytisstjóri innviðaráðuneytisins eftir 40 ára farsælan feril í stjórnarráðinu og var ráðstefnan haldin henni til heiðurs fyrir ómetanlegt framlag til öryggismála.

Kristín Sigurðardóttir, slysa- og bráðalæknir, sem unnið hefur hér á landi og á stofnunum víða erlendis var ein frummælenda á ráðstefnunni. Kristín lagði í erindi sínu út af fjölbreyttri reynslu sinni m.a. sem læknir á neyðarbíl, sem þyrlulæknir og sem sjólæknir. Kristín er jafnframt varformaður FÍB.

Kristín sýndi með tölum hversu gríðarlega mikið hefur áunnist í samgönguöryggi á undanförnum áratugum og hversu mörgum hefur verið bjargað þannig að Ísland er nú meðal þeirra bestu hvort sem er á landi, sjó eða lofti. Kristín beindi sjónum að samspil lýðheilsu, skipulags og samgangna þ.á m. á stöðugt áreiti snjalltækja, þá hættu sem stafar af dægurvillu þ.e. að tíminn á líkamsklukkunni er ekki sá sami og úrinu, að mikilvægi aðgengi að náttúru og að áhrifum loftslagsbreytinga á andlega og líkamlega líðan.

,,Það er gleðilegt að sjá hvað hefur áunnist. Þróunin hefur verið jákvæð og sýnir okkur um leið hvað við getum gert með samstiltu átaki og margvíslegum aðgerðum. Við þurfum að hafa fyrir hlutunum, þeir gerast ekki að sjálfu sér. Enn er verk óunnið,“ segir Kristín Sigurðardóttir slysa- og bráðalæknir.

Eitt af megin viðfangsefnum FÍB hefur allt frá stofnun félagsins árið 1932 og til þessa dags verið umferðaröryggi.Í áranna rás hafa fundir félagsins, landsþing þess og stjórn send frá sér fjölda samþykkta og ályktana um umferðaröryggismál og gengist fyrir og staðið að verkefnum sem hafa þann megintilgang að bæta öryggi fólksins í umferðinni. Þetta er verkefni sem aldrei getur né má taka enda.