Mikið vantar upp á grunnfjárveitingar í vegakerfinu

Hættuástand skapaðist á vegum á Vesturlandi og Vestfjörðum í þessari viku vegna blæðinga í klæðningu. Þungatakmarkanir voru settar á vissa staði, sem komu í veg fyrir að flutningabílar kæmust ekki leiðar sinnar. Fram kom í umfjöllun Kastljóss á RÚV að Vegagerðin þyrfti 20 milljarða króna í grunnfjárveitingar á ári en fái aftur á móti aðeins 12-13 milljarða.

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar, ræddi og ályktaði í síðustu viku, enn og aftur, um ástand þjóðvega á Snæfellsnesi. Ástandið hefur líklega aldrei verið verra og hafa fjölmargir vegfarendur lent í hremmingum og jafnvel stórhættu, vegna slæms ástands veganna, út af djúpum holum, ósléttu yfirborði og ekki síst vegna tjöru sem "blætt" hefur úr vegunum í hlýindum upp á síðkastið.

Gestir Kastljóss um blæðingar í klæðningu og alvarlegt ástand vega víða um land voru Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, og Bergþóra Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustusviðs hjá Vegagerðinni.

Samfélagslegur kostnaður af þessum vondu vegum er gríðarlega hár

,,Það eru mýmörg dæmi um tjón á bílum vegna bikblæðinga eða eftir holur. Samfélagslegur kostnaður af þessum vondu vegum er gríðarlega hár og hann kemur aðallega úr vasa hins almenna borgara,“ segir Runólfur Ólafsson.

Malbik er nærri fimmfalt dýrara en klæðing

Vegagerðin myndi vilja nota malbik mun víðar en nú er gert, en til þess vanti einfaldlega fjármagn. Malbik er nærri fimmfalt dýrara en klæðing,“ segir Bergþóra Kristinsdóttir.

Kastljósþáttinn um þetta mál í heild sinni má nálgast hér.