Mikil uppstokkun blasir við hjá Nissan

Bílaiðnaðurinn um allan heim standur frammi fyrir vanda og eru stjórnendur bílaframleiðenda strax farnir að bretta upp ermar, rýna í framhaldið og gera áætlanir. Kórónuveirufaraldurinn hefur leikið bílaframleiðendur ansi grátt og hefur eftirspurnin sjaldan eða aldrei verið minni. Nú heyrast þær raddir að einhverjir bílasmiðir ætla í aukið samstarf og það sé ein leið til að komast fram úr þeim erfiðleikum sem þeir nú kljást við.

Nissan tilkynnti í vikunni að ákveðið hefði að deila ákveðinni framleiðslu með Renault og Mitsubishi. Stjórnendur Nissan upplýstu að staðan hefði ekki verið verrri í ellefu ár. Hagnaður fyrirtækisins hefði minnkað jafnt og þétt á síðustu fjórum árum og minnkandi sala á bílum í Bandaríkjunum hafi reynst Nissan erfiður biti að kyngja. Unnin hefði verið fjögurra ára fjárhagsáætlun og ljóst nú þegar að dregið verði úr framleiðslugetu. Allt árið 2019 og til mars á þessu ári hefur fyrirtækið tapað hátt í 900 milljörðum króna.

Verksmiðjum á Spáni og víðar lokað

Verksmiðjum á Spáni og í Indónesíu verður lokað og dregið verður úr umsvifum í Rússlandi. Lokuninni á Spáni varð harðlega mótmælt í Barcelona snemma í morgun og brenndu mótmælendur dekk við inngang fyrirtækisins í borginni. Hjá Nissan í Barcelona unnu 3000 starfsmenn. Spænsk stjórnvöld lögðu gífurlega áherslu á að halda starfseminni þar áfram sem miður gekk ekki eftir. Forsvarsmenn Nissan ætla að beina spjótum í meira mæli á Asíumarkað en áður.

Makoto Uchida framkvæmdastjóri Nissan segir að leita verið allra ráða til að koma fyrirtækinu inn á vaxtarbraut að nýju. Hann hefði fulla trú á því að áætlanir í þeim efnum myndu ganga eftir. Uchida sagði ennfremur að auvitað hefði kórónuveiran valdið miklum usla og væri stærsti orsakavaldurinn. Einnig  mætti benda á mistök sem gerði hefu verið í stjórnun mála af ýmsu tagi á síðustu árum. Leita verði allra ráða til að koma fyrirtækinu á rétta braut. Það verði gert með því að draga úr framleiðslunni víða um heim og með auknu samstarfi við aðila í sömu grein.

Nissan seldi tæplega fimm milljónir bíla 2019 og samdrátturinn á þessu áru verður umtalsverður. Nissan er annar stærsti bílaframleiðandi Japans en Toyota er þar langstærstur.