Mikill kostnaður samfara umferðatöfum

 Í greiningu Samtaka iðnaðarins sem gerð var í tilefni af mótun samgönguáætlunar fyrir höfuðborgarsvæðið árin 2019-2033 kemur fram að samtökin áætla að þjóðhagslegur kostnaður umferðatafa á höfuðborgarsvæðinu árið 2017 hafi verið yfir 15 milljarða króna. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag í umfjöllun um málið. Þar segir ennfremur að þar hafi atvinnulífið tapað um sex milljörðum króna vegna tapaðs vinnutíma og almenningur um níu milljörðum vegna tapaðs frítíma.

Samtök iðnaðarins áætla að 19 þúsund klukkustundum hafi verið sóað í umferðartafir á höfuðborgarsvæðinu á hverjum virkum degi árið 2017.  Það gerir um sex milljónir á klst. á ári miðað við algengar forsendur um meðalfjölda farþega í bíl.

Yfirfært á hvern borgarbúa jafngildir það því að þrír dagar hafi farið í umferðartafir á árinu. Fram kemur í samtali við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, að það sé hagsmunamál fyrir Ísland að tafir í umferð séu sem minnstar.

Samtök iðnaðarins leggja áherslu á bætta samkeppnishæfni Íslands en því betri sem hún er, þeim mun meiri verðmæti verða til og lífsgæðin þar með aukast. Meginstoðir eru menntun, innviðir, nýsköpun og starfsumhverfi.