Mikill samdráttur hjá bílaframleiðendum að koma í ljós

Margir bílaframleiðendur hafa nú í vikunni verið að birta afkomutölur og spár fyrir næstu mánuði. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að búist er við miklum samdrætti. Hans er orðið þegar vart en ljóst er að það mun taka bílaiðnaðinn almenn nokkurn tíma að rétta úr kútnum.

Kórónaveiran hefur gert bílaiðnaðinum mjög erfitt fyrir eins og gefur að skilja. Bílasala um allan heim drógst gífurlega saman á fyrsta árfjórðungi þess árs.  Bílaframleiðendurnir Mazda og Honda sendu frá sér aðvörutilkynningar í vikunni vegna mikils samdráttar í bílasölu. Mazda upplýsti að tekjur fyrirtækisins hefðu dregist saman um 80%.

Toyota tilkynnti ennfremur um mikinn samdrátt og hann myndi nema hátt í 80%. Búist er við að hagnaður Toyota á þessu ári verði aðeins 20% af þeim hagnaði sem félagið skilaði í fyrra sem var þó ekkert sérstakt í sögulegu tilliti. Toyota ætlar ennfremur að draga úr framleiðslunni sem nemur um 100 þúsund bílum til júníloka. Draga á líka úr framleiðslunni í N-Ameríku.

Sömu sögu er að segja af öðrum framleiðendum. Þetta ár verður erfitt og spurningin hversu lengi þetta ástand varir.