Mikilvægt að standa rétt að hleðslu rafbíla

Af gefnu tilefni vegna frétta af bruna tveggja rafbíla miðvikudagskvöldið 6. mars á hafnarsvæðinu við Kjalarvog vill BL ehf., helsti innflutnings- og umboðsaðili fyrir rafbíla hér á landi, brýna eftirfarandi fyrir eigendum og notendum rafbíla að standa rétt að hleðslu þeirra.

Beintengja við innstungu eða hleðslustöð

Við hleðslu rafbíla er afar mikilvægt að beintengja hleðslusnúruna sem fylgir bílunum frá framleiðanda milliliðalaust í rafmagnsinnstungu eða þar til gerða hleðslustöð sem ætluð er fyrir hleðslu rafbíla. Mjög óráðlegt er að notast við framlengingarsnúru eða fjöltengi nái hleðslusnúra bílsins ekki til næstu innstungu.

Fjöltengi og framlengingar eru ekki ætlaðar rafbílum

Hleðslusnúrur sem fylgja rafbílum eru sérstaklega ætlaðar til að hlaða rafbíla. Í þeim er meðal annars sérstakt spennubox sem stillir af orkuflæðið til rafhlöðu bílsins og kemur í veg fyrir ofhitnun bílsnúrunnar. Venjulegar heimilissnúrur og fjöltengi eru ekki framleiddar til að anna slíku orkuflæði sem rafbílar krefjast við hleðslu.

Mikilvægt að þekkja rétt verklag

BL ráðleggur eigendum rafbíla að kynna sér nánar leiðbeiningar framleiðenda sem finna má í handbók bílanna varðandi rétt verklag við hleðslu bílanna.