Mikilvægum áfanga náð í undirbúningi Sundabrautar

Stefnt er að opnum kynningarfundum um breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur og umhverfismats vegna Sundabrautar í byrjun næsta mánaðar. Framkvæmdir gætu hafist árið 2026.

Borgarráð samþykkti í fyrri viku verklýsingu skipulagsgerðar og umhverfismats vegna Sundabrautar. Kynning á umhverfismati og breytingu á aðalskipulagi hefst í næsta mánuði. Framkvæmdir við Sundabraut gætu hafist árið 2026.

Fram kemur í fundargerð borgarráðs að með þessu náist mikilvægur áfangi í framgangi verkefnisins. Jafnframt er lögð fram áætlun um hvernig standa skuli að umhverfismati vegna breytinganna. Framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar, Guðmundur Valur Guðmundsson, segir þetta vera mikilvægan áfanga í undirbúningi Sundabrautar.