Miklar nýjungar í vændum hjá BMW Group

BMW Group hefur kynnt mikla sókn á bílamarkaðnum. Í ræðu sem Harald Krüger, stjórnarformaður fyrirtækisins hélt á blaðamannafundi í München í byrjun mánaðarins kom m.a. fram að fyrir árslok 2018 verði fyrirtækið búið að kynna fjörutíu nýjar og uppfærðar gerðir BMW og MINI frá og með 1. janúar á þessu ári.

Framundan er einnig mikil aukning í úrvali 100% rafmagnsbíla auk þess sem sjálfkeyrandi bílar eru svo sannarlega hluti af sókninni sem segja má að hafi í rauninni byrjað með frumsýningu nýjustu kynslóðar lúxusbílsins BMW 5 Series í upphafi ársins.

Nú þegar eru meira en 300 þúsund BMW 5 komnir á götuna síðan sala hófst á nýja bílnum. Forsvarsmenn BMW segja fyrirtækiðí forystu á þessum hluta markaðarins og og þessum árangri verði fylgt eftir  með nýjum M5 sem verður hraðskreiðari en M760 Li sem hingað til hefur verið hraðskreiðasti fjöldaframleiddi bíll BMW.

Meðal annarra nýjunga sem kynntar hafa verið á árinu eru 1 Series, 2 Series Coupé og Convertible, 4 Series, nýr 6 Series Gran Turismo og ný kynslóð hins vinsæla X3. Ennfremur er von á X2 fljótlega.

BMW Group ætlar sér ennfremur stóra hluti á dýrari enda lúxusbílamarkaðnum þar sem Krüger segir að sé hinn sanni heimavöllur fyrirtækisins. Á þeim markaði munu nokkrar gerðir spila aðalhlutverkið. Þeirra á meðal eru nýr Rolls-Royce Phantom, BMW i8 Roadster, 8 Series Coupé, BMW M8 og X7.