Miklu öflugri rafgeymar fyrir tvinnbíla nú fáanlegir

http://www.fib.is/myndir/ToyotaPrius.jpg
Toyota Prius.

Kostir tvinnbíla eins og Toyota Prius eru fyrst og fremst þeir að í þeim er hemlunarorkan endurnýtt og breytt í rafmagn sem hleðst inn á geymana í bílnum. Raforkan nýtist síðan rafmótor bílsins til að knýja hann áfram. Þessir kostir tvinnbíla nýtast eðli málsins samkvæmt best í borgarumferð þar sem sífellt er verið að hemla og taka af stað. Þegar umferð er mjög hæg er það oftar en ekki einungis rafmótorinn sem knýr bílinn áfram en bensínhreyfillinn fer svo af og til í gang til að bæta rafmagni inn á geymana.

Fyrst þegar tvinnbílar komu fram þurftu framleiðendur þeirra að hafa talsvert fyrir því að útskýra hvernig tvinnkerfið vinnur. Flestir trúðu því nefnilega að það þyrfti að stinga bílnum í samband við rafmagnsinnstungu til að hlaða geymana. Nú vita flestir að bensínhreyfillinn er eiginlega bara ljósavél og fer í gang þegar það vantar straum á rafhlöðurnar. En nú þegar bensínverðið veður upp á við er kannski kominn tími til að hugsa málin upp á nýtt, setja miklu stærri geyma í tvinnbílinn sem hægt er að hlaða upp heima yfir nóttina og keyra síðan bílinn í vinnuna á rafmagninu einu?

Fyrirtæki í Kaliforníu sem eitir eDrive Systems býður einmitt eigendum tvinnbíla upp á þesskonar ofur-rafgeymi til að setja í bílana. Þessi nýi ofurgeymir er 20 sinnum öflugri en sá sem eru í nýjustu Toyota Prius bílunum. Hann þýðir að hægt er að aka bílnum miklu lengur á rafmagni einu saman, eða allt að 40 kílómetra, ef ekki liggur þess meir á.

Með þessum nýja rafgeymi er því auðvelt, miðað við venjulega notkun bílsins í blönduðum akstri, að ná bensíneyðslunni niður í þrjá lítra á hundraðið eða minna. Auto Motor & Sport greinir frá þessu en getur þess jafnframt að stærsti ókosturinn við þennan ofurgeymi sé sá hve rándýr hann er. Verðið er í kring um ein milljón ísl. kr. en fyrir þá upphæð má kaupa ansi marga bensínlítra í Ameríku.