Miklu öruggari bílar á 25 árum

Hvað varðar hættu á að örkumlast eða deyja í bílslysum þá hafa framfarir í bílasmíði orðið slíkar á sl. 25 árum að í dag eru 88 prósent minni líkur á því að láta lífið í bílslysi en þá. Stærstu framfaraskrefin hafa orðið frá því að sameignarstofnun evrópsku bifreiðaeigendaklúbbanna, EuroNCAP tók til starfa og hóf að árekstursprófa nýja bíla. Þetta má lesa úr nýrri rannsókn sænska tryggingafélagsins Folksam.

Niðurstöðurnar eru í sem allra stystu máli þær að ef 100 ökumenn gerðu tiltekin akstursmistök í „nýjum“ bílum af árgerð 1980-1981 þá myndu allir 100 láta lífið. Ef 100 ökumenn á nýjum bílum gera þessi sömu mistök myndu einungis 12 af 100 láta lífið.

Í síðustu tveimur árekstrarprófanalotum Euro NCAP hafa nánast allir bílarnir náð hæstu stjörnueinkunn; fimm stjörnum. Fimmta stjarnan er mikilvæg, ekki síst vegna þess að bílar verða að vera búnir ESC skrikvörn til að geta hlotið hana.  Þá sýnir rannsókn Folksam að fimm stjörnu bíll í árekstursprófi er 79 prósent öruggari en tveggja stjörnu bíll. Þessar nýju niðurstöður Folksam eru afrakstur rannsókna á raunverulegum slysum sem orðið hafa, eins og slysarannsóknir Folksam gera jafnan.

Slysarannsakendur Folksam hafa frá 1995 farið í saumana á 115 þúsund framaná-árekstrum tveggja bíla. Í þessum slysum slösuðust alls 31.500 manns. Niðurstöðurnar eru m.a. nýttar til að ákvarða nokkurskonar öryggisstuðul fyrir einstakar bílategundir og –gerðir. Jafnframt má lesa úr niðurstöðunum mikið um þá almennu þróun sem orðið hefur í smíði bíla og hvernig þeir verja fólkið um borð.

Í því efni sýnir það sig að hættan á því að láta lífið í bíl af árgerðum 2005-2009 er 88 prósentum minni en í bíl af árgerðum 1980-1984. Hér er að sjálfsögðu átt við bíla sem eru í fullkomnu lagi og óryðgaðir með öllu. Ef saman eru flokkuð banaslys og alvarleg slys á fólki sem hlýtur varanlega örorku þá er bataprósentan á 25 árum nokkru lægri eða 25 prósent.