Milljón Aygo frá Tékklandi
Toyota Aygo. Milljón bílar komnir.
Þótt flestar fréttir úr bílaheiminum séu heldur dapurlegar um þessar mundir og bílaiðnaðurinn í heild eigi í bannsettu basli, þá grillir sumsstaðar í ljóstýru í myrkrinu. Bílaverksmiðjan TPCA (Toyota Peugeot Citroën Automobil) í Tékklandi, um 60 km frá höfuðborginni Prag, fagnaði á dögunum því að hafa frá því framleiðsla hófst í febrúar árið 2005 skilað af sér milljónasta bílnum. Og það virðist ekkert lát á eftirspurninni.
Það er Toyota sem er frumkvöðull framleiðslunnar og frá Toyota er öll tækni, sem og framleiðslu- og gæðastaðlar komnir. Framleiðsluvaran er fjögurra manna smábíll sem markaðssettur er undir þremur vörumerkjum. Auk þess að framleiða bílinn undir eigin vörumerki rennur þessi vinsæli bíll af færiböndunum einnig sem Citroen C1 og Peugeot 107. Smávægilegur útlitsmunur er á bílunum eftir því hvaða nafn þeir bera, en í grunninn er þetta þó allt saman sami bíllinn.
TPCA verksmiðjan er sem fyrr segir um 60 km frá Prag. Þar starfa 3500 manns við að setja saman hinn þríeina smábíl sem er mjög vinsæll í mörgum Evrópulöndum. Hann fæst með nokkrum gerðum véla, m.a. dísilvél, en vinsælastur er hann víðast hvar með þriggja strokka 1000 rúmsm bensínvél, ekki síst í Danmörku og Noregi þar sem Aygo/C1/107 er söluhæsti smábíllinn.
Samhliða tilkynningunni um milljón bíla áfangann tilkynnti Toyota í vikunni að verið væri að hefja framleiðslu á Toyota RAV 4 jepplingnum í nýrri verksmiðju í Woodstock í Ontarioríki í Kanada. Þar munu starfa 1200 manns og skrúfa saman um 75 þúsund RAV 4 jepplinga á ári. Framleiðslan í verksmiðjunni er að stórum hluta sjálfvirk. Bílaframleiðsla á vegum Toyota er þó ekki neitt nýtt í Kanada því hún hófst fyrst árið 1988. Árlega eru framleiddar 270 þúsund Toyotur í Kanada.