Milljón Svíar krefjast lækkaðra skatta á eldsneyti

http://www.fib.is/myndir/Tankning.jpg
Þessi sænska kona hefur fengið nóg af háu eldsneytisverði.

Yfir ein milljón manns hefur undirritað mótmæli gegn sköttum á bílaeldsneyti í Svíþjóð. Í hádeginu á morgun, þriðjudag verður svo útifundur á Mynttorgi í Stokkhólmi sem lýkur með því að undirskriftirnar milljón + verða afhentar fjármálaráðherra Svíþjóðar.

Jafnframt verður fjármálaráðherrann og ríkisstjórnin krafin um að lækkaður verði virðisaukaskattur af eldsneyti úr 25% í 6% eða sömu VSK-prósentu og ríkið innheimtir af almannasamgöngum. Þá verði ennfremur hætt að leggja virðisaukaskattinn ofan í aðrar álögur sem sænska ríkið (eins og það íslenska) leggur á bifreiðaeldsneytið. Undirskriftasöfnunin hefur farið fram á Internetinu á sama hátt og samskonar undirskriftasöfnun og af sama tilefni fór fram hér á Íslandi að frumkvæði FÍB í fyrra.

Að undirskriftasöfnuninni og útifundinum á morgun standa samtök sænskra skattgreiðenda og samtök sem kallast –Uppreisnin gegn bensínsköttunum. Samtökin segja á heimasíðum sínum að forystumenn flestra stærstu stjórnmálaflokkanna hafi skellt skollaeyrum við kröfu almennings um lækkaðar álögur á bílaeldsneyti og minna á að kosningar séu í nánd (í september nk.) Þá eru stjórnmálamenn minntir á að samkvæmt könnun eru 92% þeirra sem undirritað hafa áskorun um lækkaða eldsneytisskatta tilbúnir að skipta um flokk í kosningunum framundan og kjósa einungis þá sem styðja lækkaðar eldsneytisálögur. „Það er því ekki ólíklegt að stóru flokkarnir eigi eftir að verða fyrir áfalli, ætli þeir áfram að hundsa rödd fólksins,“ segir á heimasíðu –Uppreisnarinnar gegn  bensínsköttunum.