Milljón Toyotur í október

The image “http://www.fib.is/myndir/Toyotalog.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.

Tæplega ein milljón bíla runnu af færiböndum Toyotaverksmiðja í veröldinni í októbermánuði sl. Það þýðir að um það bil 40 þúsund bílar á hverjum virkum degi. Í októbermánuði jókst bílaframleiðsla Toyota um 14,4 prósent miðað við sama mánuð í fyrra.

Í heimalandinu Japan voru framleiddir 412 þúsund bílar og er það met. Salan á heimamarkaði jókst um 6,5 prósent miðað við sama tíma í fyrra og er markaðshlutdeild Toyota á heimamarkaði nú komin í 51,6 prósent ef smábílar eru undanskildir.

Bílaútflutningur Toyota frá Japan jókst um 17 prósent miðað við sama mánuð í fyrra, fyrst og fremst á markaði í Asíu, Mið-Austurlöndum og Evrópu. Hins vegar dró úr útflutningi til Bandaríkjanna. Ástæða þess eru sú að framleiðsla á Toyota bílum í Bandaríkjunum hefur aukist í takti við aukna eftirspurn þar.

Á fyrstu tíu mánuðum ársins hefur Toyota samsteypan framleitt 7.896.055 bíla í öllum verksmiðjum sínum hvarvetna um heiminn. Það er 5,3 prósentum meira en á sama tíma árið 2006. 7.093.349 þessara bíla eru af Toyota eða Lexus-gerðum, 713.783 eru Daihatsu og 88.923 eru Hino.

Nú má vart á milli sjá hvor bílaframleiðandinn Toyota eða GM er stærri, en svo mjög hefur Toyota dregið á GM undanfarin ár að lítill vafi  þykir leika á um að Toyota eigi eftir að fara með sigur í keppninni um að vera stærsti bílaframleiðandi heims.