Mini-hátíðarhöld í sumar

http://www.fib.is/myndir/Mini59.jpg

Upprunalegi Mini-inn sem verkfræðingurinn Issigonis teiknaði frumdrög að á servíettu úti á pöbb, er 50 ára á þessu ári. Í tilefni af afmælinu verða hátíðarhöld í Englandi í ágústmánuði sem nefnast International Mini-Meeting og eftir nákvæmlega viku, fimmtudaginn 2. apríl ætla Mini-áhugamannaklúbbar í Danmörku að stilla einum 60 Mini bílum upp á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn.

Áhugafólk um þennan merka og vinsæla breska bíl sem statt verður í Kaupmannahöfn þennan dag ætti að líta við á Ráðhústorginu síðdegis 2. apríl til að líta augum nokkrar af þeim mikla fjölda gerða og sérútgáfa sem gerðar hafa verið af Mini. http://www.fib.is/myndir/Mini-Cooper-S-0.jpg

Gamli Mini-inn var langlífari í framleiðslu en margir kannski halda, því að hann var framleiddur allt fram til ársins 2000. Mini náði ekki mikilli fótfestu hér á landi. Fyrsta umboð fyrir Mini var Garðar Gíslason hf. neðst á Hverfisgötunni en síðan P. Stefánsson við hinn enda Hverfisgötunnar. Það fyrirtæki rann síðan  saman við Heklu hf. Sjálfsagt hefur það orðið bílnum til trafala hér á landi að vegir á Íslandi voru afleitir fyrir 50 árum og það voru lítil hjól undir Mini og lágt undir hann.

Á ýmsu gekk meðan Mini var á dögum og hann var framleiddur undir ýmsum nöfnum, svo sem Morris Mini, Austin Mini og Morris Mascot. Frægasta sérútgáfan er efalítið sú sem kappakstursmaðurinn John Cooper gerði. Sú útgáfa varð mjög sigursæl í fjölmargri rallkeppnni, t.d. Monte Carlo rallinu.