Mini-jepplingur

http://www.fib.is/myndir/MiniCrossman_snefram_big.jpg
Mini Crossman jepplingur, myndaður í Svíþjóð.

Um þessar mundir er BMW að láta reynsluaka og þolprófa nýjan Mini-jeppling, meðal annars í Norður-Svíþjóð þar sem miklir kuldar eru vanalega um þetta leyti árs. Jepplingurinn er að mestu byggður á Mini-skutbílnum Mini Clubman en hærra er undir hann auk þess að hann er fjórhjóladrifinn. Þessi nýi Mini verður byggður hjá Magna Steyr í Austurríki í um það bil 60 þúsund eintökum á ári. Ætlað er að hann komi á markað um mitt ár 2010.

Bíllinn er fjórða undirgerð Mini og evrópsk bílablöð  hafa af því spurnir að bíllinn hljóti gerðarheitið Crossman. Það vill forstjóri Mini þó ekki staðfesta. Hann vill ekki heldur kalla nýja bílinn sama nafni og Bandaríkjamenn nefna jepplinga, sem er SUV (Sport Utility Vehicle) heldur SAV sem stendur fyrir Sports Activity Vehicle eða farartæki fyrir sportlega athafnasemi. Hann segir að vinnuheiti bílsins sé E84.http://www.fib.is/myndir/MiniCrossman_illus.jpg

Góð eftirspurn hefur verið eftir Mini frá því að fyrstu bílarnir byrjuðu að renna út úr verksmiðjunni í Oxford í Englandi. Skutbílsútgáfan, eða Mini Clubman hefur hlotið mjög góðar viðtökur og og þótt verksmiðjan í Oxford sé nú keyrð á fullum afköstum (260 þúsund bílar á ári) þá er bið eftir nýjum Mini bílum og lengstur er biðlistinn eftir Clubman um þessar mundir og afgreiðslufrestur hátt í þrír mánuðir.  Mini jepplingurinn er með samskonar fjórhjóladrifstækni og tíðkast í BMW bílum, eða það sem kallast xDrive.

Mini skilar BMW góðum hagnaði en hversu miklum vill forstjóri Mini ekki tilgreina í samtali við Auto Motor & Sport en segir þó að þegar framleiðslan hófst þurfti að selja 100 þúsund bíla til að standa á sléttu. Árið 2007 hefðu selst rúmlega 220 þúsund Mini bílar. Ódýrasti Mini bíllinn kostar við verksmiðjudyr 15.850 evrur en meðalverð seldra Mini bíla í Evrópu á síðasta ári var 22.500 evrur.