Mini vex og dafnar

The image “http://www.fib.is/myndir/Miniconv2lit.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Þær góðu viðtökur og vinsældir sem Mini hefur hlotið eftir að BMW eignaðist hið breska bílaframleiðslufyrirtæki munu leiða til meiri fjölbreytni. Frá og með september 2006 verður ekki bara val um einn og sama bílinn með mismunandi innréttingum og búnaði heldur fleiri gerðir því að þá kemur ný kynslóð Mini fram á sjónarsviðið. Þá kemur einnig fram skutbílsútgáfa og önnur sem er opinn blæjubíll. Í framhaldinu birtast svo enn nýjar gerðir, þeirra á meðal er Mini sem fjölnotabíll, ný opin sportútgáfa og nýr og stærri skutbíll.
Nýja kynslóðin sem kemur fyrst fram haustið 2006 verður stærri en núverandi Mini. Hann verður 25 sm lengri en nú, eða 3,87 m. Hluti lengdaraukningarinnar verður búnaður að framanverðu til þess að mæta nýjum kröfum um öryggi fótgangandi fólks.  
Á næsta ári verður Mini-verksmiðjan í Oxford stækkuð og afköstin aukin úr 200 þúsund bílum árlega í 300 þúsund bíla. Jafnframt verður auðveldara að framleiða mismikið útbúna bíla og mismunandi gerðir þeirra jöfnum höndum. Eftir breytinguna á verksmiðjunni kemur svo arftaki Mini Clubman skutbílsins frá sjöunda áratuginum. Hann verður tveggja dyra með tvöföldum dyrum á afturgaflinum. Sætið verður niðurfellanlegt en einnig færanlegt fram og aftur eftir þörfum aftursætisfarþega. Síðar kemur svo lengri gerð hins nýja Clubman. Sá verður fjögurra dyra.
Í framtíðinni verður Mini einnig fáanlegur með fjórhjóladrifi og talsvert upphækkaður. Sömuleiðis er á teikniborðinu fjögurra dyra útgáfa af núverandi Mini en þeirri gerð er ætlað að svara samkeppni við franska og þýska smábíla.
En það er víst komið á hreint að það verða nýjar vélar í nýju gerðinni af Mini sem kemur 2006. BMW hefur haft samstarf um smíði bensínvéla við DaimlerChrysler og við Toyota um smíði dísilvéla fyrir Mini.  Mini bílar verða framvegis með 1,4 l og 1,6 l bensínvélar sem eru frá 75 upp í 170 hestöfl. Dísilvélarnar verða 1,6 l og aflið 90 eða 110 hö. með túrbínu.  Við dísilvélarnar verður 6 gíra gírkassi en við bensínvélarnar fimm eða sex gíra handskiptingar eða stiglausar CVT skiptingar. Nýja Minni-kynslóðin verður með hefðbundnu mælaborði þar sem mælarnir verða beint fyrir framan ökumann en í miðjunni verða hljómtæki, leiðsögutæki og stjórntæki fyrir loftræstinguna.
The image “http://www.fib.is/myndir/Miniconv2St.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Fleiri gerðir Mini eru væntanlegar.