Minni, aflmeiri, sparneytnari, hreinni

Svo virðist sem þróun bensínvélarinnar sé hvergi nærri lokið. Stutt er síðan Volkswagen kom fram með litlar en öflugar og sparneytnar bensínvélar, Fiat kynnti nýjar enn sparneytnari bensínvélar en voru þeirra vélar þó ekki neinir eyðsluhákar fyrir. Og nú hefur Volvo þróað nýja fjögurra strokka 2,0 l  túrbínubensínvél. Volvo vélin er ekki aflminni en nýjustu fimm strokka vélar Volvo, en verulega sparneytnari og „hreinni“ eða mengunarminni en þær. Afl nýju vélarinnar er 203 hö. og vinnslan eða snúningsvægið er 300 Nm.

http://www.fib.is/myndir/Volvomotor_skiss.jpg
 

Þessi nýja vél nefnist GTDi (Gasoline Turbocharged Direct Injection).  Hún er með beina strokkinnsprautun eldsneytisins, túrbínu og tvo knastása sem hvor um sig hefur eigið kerfi sem stýrir breytilegum opnunartíma ventla (VVT -Variable Valve Timing). Þetta tryggir besta mögulega bruna eldsneytisins og bestu vinnslu á hvaða snúningshraða vélarinnar sem vera skal.

Túrbínukerfið og útblástursgeinin er sambyggt í einni einingu og sagt vera eitt hið minnsta en jafnframt öflugasta sem um getur í bílvél af þessari stærð og afli. Það er þróað í samvinnu Volvo við Borg Warner og stálsmiðjuna Benteler Automotive. Tækniþróunarstjóri Volvo segir að margir vilja aka aflmiklum bílum og nú sé loks hægt að sameina þessa ósk markmiðum um minni eyðslu og útblástur sem sé mikil framför. Þessi nýja vél í stórum og þungum bíl eins og Volvo S80 eyði einungis 8,3 lítrum á hundraðið í blönduðum akstri og án þess að nokkurt sparaksturslag sé viðhaft.

Nýja vélin verður fyrst fáanleg í Volvo S60, ýmist með sex gíra handskiptingu eða sex hraða Powershift-gírkassa. Í fyrstunni verða bílar með þessari vél einkum í boði á mörkuðum þar sem bílar eru skattlagðir eftir vélarstærð, fyrst og fremst S.A. Asíu, Hollandi, Kína og Japan. Í heimalandinu kemur S60 með þessari vél á markað í sumar.