Minnsta aukning umferðar á höfuðborgarsvæðinu síðan 2011

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu í október jókst um 1,6 prósent sem er minnsta aukning í þessum mánuði síðan árið 2011. Þetta er sama þróun og á sér stað á Hringveginum sbr. eldri frétt. Umferðin það sem af er ári hefur aukist um 1,2 prósent sem er einnig minnsta aukning síðan 2011 eftir sem fram kemur í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Umferð yfir þrjú lykilmælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu jókst um 1,6% í nýliðnum mánuði borið saman við sama mánuð á síðasta ári.

Mest jókst umferðin yfir mælisnið ofan Ártúnsbrekku eða 3,1% en 1,0% samdráttur varð í mælisniði á Hafnarfjarðarvegi. Meðaltalsaukning í október frá 2005 og til ársins 2018 var 3,2% þ.a.l. er núverandi aukning langt undir meðalþróun. Leita þarf aftur til ársins 2011 til að finna minni aukningu umferðar um höfuðborgarsvæðið í októbermánuði.

 

Umferð eftir vikudögum
Mest var ekið á föstudögum, í nýliðnum mánuði, en minnst á sunnudögum.  Hlutfallslega jókst umferðin mest á laugardögum eða um 2,5% en minnst varð aukningin á mánudögum eða 0,6%.  Umferð jókst að meðaltali um 1,3% á virkum dögum en 2,1% um helgar. Nú hefur umferðin, yfir mælisniðin þrjú, aukist um 1,2% frá áramótum. Þessi aukning er sú minnsta frá árinu 2011.