Minnsta bílasalan í 15 ár í Evrópu

Jaguar, ein örfárra tegunda sem juku hlut sinn 2008.

Sala nýrra bíla í Evrópu árið 2008 varð 7,8 prósentum minni en árið á undan og jafnframt sú minnsta í 15 ár. Samband evrópskra bílaframleiðenda, ACEA hefur tekið saman sölutölur í Evrópusambands- og Efta-löndunum og þetta er niðurstaðan. Alls voru nýskráðir 14,7 milljón nýir fólksbílar. Mestur varð samdrátturinn á Íslandi og Lettlandi, yfir 40 prósent, en einnig mikill á Spáni (28%) og í Eistlandi (21%).

Einungis sex bílategundir af 33 bættu stöðu sína í fyrra. Allar hinar töpuðu markaði miðað við árið á undan. Árið byrjaði svo sem þokkalega en um mitt árið byrjaði salan að skreppa saman og náði lágmarki í desember sl. Þá seldust 19,3 prósentum færri bilar en í des. 2007. Nýskráningar í álfunni urðu alls 14.712.158 (að undanteknum Kýpur og Möltu). 

Best gekk sala nýrra bíla i Slóvakíu. Þar jukust nýskráningar um 17,3 prósent miðað við árið 2007. Næst mesta fjölgun varð í Finnlandi, 11,2 prósent. Fjölgun nýskráninga varð í níu öðrum ríkjum en mismikill samdráttur í hinum 16. Alls voru 33 tegundir bíla nýskráðar á árinu 2008. Um fjölgun nýskráninga var að ræða hjá einungis sex tegundanna. Fækkun varð hjá öllum hinum.

Einna mest fjölgun í prósentum talið varð hjá Jaguar, eða 12,6 prósent. Geta skal þess þó að tiltölulega fáa bíla er um að ræða eða alls 37.587 stykki. Næst mesta fjölgun nýskráninga í prósentum talið, varð hjá Nissan, 8,8 prósent. En eintakafjöldinn var hátt í tífaldur á við Jaguar eða 337.913 bílar. Sjö prósenta fjölgun varð hjá Smart og bak við þá prósentu standa 101.756 bilar. Hinn ódýri Dacia gekk einnig vel með 6,2 prósent fleiri nýskráningar en árið 2007 eða 184.109 talsins. Þá varð Mazda einnig réttu megin við núllið með 2,1 prósents fjölgun og Audi einnig með 0,2 prósenta fjölgun. Loks varð samanlagt 12,3 prósenta fjölgun í tveimur bílamerkjum innan Fiat. Þessi merki eru Maserati og Ferrari. Bak við prósentutöluna eru 6.521 nýskráning. Meiri eða minni samdráttur varð hjá öllum hinum.

Meira en 20 prósenta samdráttur varð hjá fimm merkjum. Verst varð ástandið hjá Alfa Romeo eða -29,1 prósent miðað við árið á undan. Næst verst varð það hjá Lexus -25,7 prósent og hjá Saab -22,7 prósent. Mest selda bíltegund í Evrópu 2008 varð Volkswagen, með 1.570.583 nýskráningar. Næst kemur Ford með 1.224.750 nýskráningar. Í þriðja sæti er Opel/Vauxhall með 1.155.422 nýskráningar, Renault með 1.102.011 og Peugeot með 1.007.713 nýskráningar. GM sem heild mátti líða samdrátt upp á 13,9 prósent, Hjá Toyota/Lexus varð 12,4 prósenta samdráttur og 9,1 prósenta samdráttur varð hjá Peugeot/Citroën. Hjá Renault varð 6,9 prósenta samdráttur og 5,9 prósent hjá Daimler AG.