Mirai er framtíðarbíll Toyota

Toyota mun afhjúpa nýja efnarafalsbílinn Mirai á bílasýningunni í Los Angeles sem opnuð verður á fimmtudag. Efnarafallinn er framtíðar orkugjafi fyrir bíla að mati Toyota og sjálft nafn bílsins, Mirai, þýðir einmitt framtíð.

Bílar með efnarafal eru í rauninni rafbílar. Það er rafmótor sem knýr þá áfram en í stað rafgeyma er efnarafall í bílunum sem breytir vetni í rafmagn. Við það myndast vatnsgufa sem er það eina sem kemur út um púströrið. Miklar vonir hafa lengi verið bundnar við efnarafalstæknina og margir minnast tilraunastrætisvagnanna frá Mercedes Benz sem voru í notkun í Reykjavík fyrir allmörgum árum.

Eiginlega einu bílaframleiðendurnir sem hafa haft trú á framtíð rafbíla með rafgeymum um borð eru Renault og Tesla. Flestir hinna, þeirra á meðal Toyota og Hyundai hafa meiri trú á vetninu og efnarafalnum og þótt Hyundai og nú Toyota séu komnir fram með efnarafalsbíla og tilbúnir að fjöldaframleiða þá, þá er það alls ekki svo að þessi tækni sé tilbúin til þess að fella jarðefnaeldsneytisknúna bílinn af stalli. Svo er alls ekki. Tæknin er alls ekki full þróuð enn þrátt fyrir að hafa  verið þekkt í áratugi og allir innviðir eins og vetnisframleiðsla –geymsla og –dreifing er enn ekki til staðar.

En það er vissulega forvitnilegt að kynnast viðhorfi stjórnarformanns Toyota til þessara mála.