Mitsubishi í Danmörku vill sjálft lagfæra tjónabíla

http://www.fib.is/myndir/Crashtest06.jpg

Talsverð greinaskrif og orðahnippingar hafa orðið í fjölmiðlum í Danmörku undanfarið um viðgerðir á tjónabílum og þátt tryggingafélaga í þeim málum. Tjónaviðgerðaverkstæði hafa verið sökuð um vond vinnubrögð, lélega vinnu, vankunnáttu og kæruleysi við tjónaviðgerðir.

Verkstæðin hafa svarað fullum hálsi og m.a. svarað því til að tryggingafélög píni verð á þessum viðgerðum niður úr öllu valdi og miðli tjónaviðgerðum til „ódýrra“ verkstæða þar sem kunnátta er jafnvel tæpast til staðar eða þessi vinna sé jafnvel unnin með hangandi hendi vegna þess að greiðslur nægi ekki fyrir réttum og fullkomnum viðgerðum. Þessi verðstefna tryggingafélagana leiði svo til þess að illa viðgerðir tjónabílar komist aftur í umferð.

Vegna þess að tjónaviðgerðir eru komnar í þennan óheppilega farveg í Danmörku hefur Mitsubishi Danmark, innflytjandi Mitsubishi bíla ákveðið að setja upp eigið réttinga- og tjónaviðgerðaverkstæði, Mitsubishi Skadeservice. Þjónustustjóri fyrirtækisins, Volker Nitz, segir í samtali við Motormagasinet að það sé gert til að mótmæla þeirri óheillaþróun sem orðið hafi í þessum málum. Hann segist vel gera sér grein fyrir því að margir muni túlka þetta sem atvinnuróg gagnvart  tjónaviðgerðaiðnaðinum en það verði þá bara að hafa það. Hann segist eingöngu vera að hugsa um hagsmuni bifreiðaeigendanna sem hingað til hafa treyst í blindni á að þau verkstæði sem tryggingafélögin hafa viðurkennt séu í lagi og skili öruggri vinnu og hann kallar eftir tilstyrk FDM, systurfélags FÍB í málinu.

Þjónustustjórinn segir að á þeim sjö árum sem hann hafi gegnt þessari stöðu hjá Mitsubishi hafi fyrirtækið aldrei nokkru sinni selt eina einustu viðgerðahandbók eða verið beðið um nauðsynlegar tækniupplýsingar til viðgerðaaðila. Hann segir það segja talsvert ógnvænlega sögu.