Mitsubishi i-Miev rafbíll í Frankfurt sem Peugeot iOn

Peugeot í Frakklandi er öflugasti framleiðandi rafbíla í heiminum og hefur verið lengi. Smábíllinn Peugeot 106 var framleiddur sem rafbíll þegar í lok 10. áratugarins og var þá talsvert algengur. Nokkrir slíkir bílar voru fluttir hingað til lands um það leyti og eftir því sem við vitum best er a.m.k. einn þeirra bíla ennþá í notkun á höfuðborgarsvæðinu.

Þá minnist ritari þessara orða þess að hafa farið í ökuferð með Hjörleifi Guttormssyni þáverandi alþingismanni í Peugeot 106 rafbíl og átt við hann viðtal í DV um þann bíl og um rafbíla almennt og framtíð þeirra á Íslandi.

Og Peugeot hefur ekki lagt rafbílana á hilluna, síður en svo því að eins og sagt var frá nýlega hér á fréttavef FÍB  hefur Peugeot gert samstarfssamning við Mitsubishi um framleiðslu og framþróun rafbílsins i-Miev og Peugeot sýnir einmitt þann bíl á bílasýningunni í Frankfurt sem opnuð verður á næstu dögum. Bíllinn, sem ber nafnið Peugeot iOn, verður þar með Peugeot merkinu á trýninu og í stað blý / sýrugeymanna í Peugeot 106 eru komnir líþíumgeymar. Sala á bílnum hefst í Evrópu á síðari hluta  næsta árs. Samtímis hefst sala á nýjum tvinnbíl Peugeot, þeim fyrsta frá þessum framleiðanda. Sá bíll heitir Peugeot 3008. Hann verður með 200 ha. rafmótor og dísilrafstöð.

 Peugeot ábyrgist að drægi nýja bílsins verði 130 kílómetrar á fullhlöðnum rafhlöðum. Þegar geymarnir eru tómir tekur sex tíma að hlaða þá með því að stinga í samband við venjulega innstungu. En með því að stinga í samband við sérstaka hraðhleðslutengla með hærri spennu og meiri straumi í amperum talið, þá tekur einungis hálftíma að hlaða geymana upp í 80 prósent.

 Í fyrstunni verður Peugeot iOn einkum boðinn fyrirtækjum, stofnunum og félagasamtökum til kaups. Hann er í fyrstunni þannig hugsaður handa aðilum sem þurfa á að halda bíl til stuttra vegalengda og sem geta komið upp sínum eigin hraðhleðslustöðvum. Jafnframt verður verðið – eins og á Mitsubishi i-MIEV reyndar – það hátt í fyrstunni að ekki er líklegt að það höfði til einstaklinga og fjölskyldna. Verðið er í grófum dráttum þannig að bíllinn mun kosta svipað og sambærilegur hefðbundinn bíll og geymarnir svo annað eins.

Peugeot iOn verður framleiddur af Mitsubishi undir merkjum beggja.  Mitsubishi ábyrgist að líftími rafhlaðanna verði 10 ár eða 150 þúsund kílómetrar. Þar sem allt gangverk rafbíls er miklu einfaldara en í hefðbundnum bílum getur vel hugsast að það eigi eftir að borga sig að skipta um geyma eftir 10-12 ár. Með fjölgun rafbíla og aukinni fjöldaframleiðslu líþíumgeyma má gera ráð fyrir að geymarnir verði mun ódýrari þá en þeir eru nú. Engin leið er þó að spá um hvert raunverulegt verð verður eftir áratug.

 Rafgeymarnir í þessum nýja bíl verða um 200 kíló að þyngd sem er góðum  helmingi léttara en ef um hefðbundna blý / sýrugeyma væri að ræða. Sjálfur rafmótorinn, sem er 64 hö og með 180 Nm vinnslu, er hins vegar miklu léttari en hefðbundinn bensín- eða dísilmótor. Og loks er ekki gírkassi í bílnum. Hann er óþarfur vegna þess hve snúnings- og aflsvið rafmótorsins er vítt. Hámarkshraði er 130 km á klst.

 Rafmótorinn þarfnast nánast engrar þeirrar þjónustu sem hefðbundnar bílvélar krefjast. Aldrei þarf að skipta um olíu og sárasjaldan að smyrja hann og þar sem í honum er einungis einn hreyfanlegur hlutur sem snýst í tveimur legum  eru bilanalíkur sáralitlar. En fari þó svo að eitthvað eigi eftir að bila, þá er í bílnum búnaður sem hringir í verkstæði ef bílllinn stöðvast úti á vegi. Búnaðurinn greinir frá því hvað að sé, hver staðan á geymunum sé og hvar bíllinn er staddur – nákvæmlega.

 

Helstu staðreyndir um Peugeot iON /Mitsubishi i-MIEV

 Gerð: Fimm dyra„hálf“-skutbíll. Fjögurra manna.

Byggingarlag: Rafmótor afturí og drif á afturhjólum. Rafhlöður í milligólfi.

Vél: Riðstraumsrafmótor. Aflt 47 kW (64 hö), vinnsla 180 Nm.

Rafhlöður: Líþíum-jónarafhlöður. Hleðslutími, 220 V: 6 -7 klst. Hraðhlelðsla upp að 80 prósent hleðslu: Um 30 mín.

Drægi: Um 130 km með fullhlaðna geyma í ferðarbyrjun.

Hámarkshraði: 130 km/klst.

Ytri mál: L/B/H: 340/148/160 sm. Lengd milli hjóla: 255 cm.

Eig. þyngd: 1.080 kg.

"Eldsneytiskostnaður": U.þ.b 2 kr per km.

Verð: Ekki fastákveðið. Líklegt verð í Evrópu 5-6 milljónir ísl. kr.