Mitsubishi innkallar 14,700 rafbíla

Reuters fréttastofan greindi frá því fyrir stundu að Mitsubishi Motors Corp væri nú að innkalla 14,700 rafbíla vegna galla í hemlabúnaði. Hemlagallinn er einvörðungu bundinn við rafbíla frá Mitsubishi. Bílarnir sem um ræðir eru dreifðir víða um heim. Þeir eru af gerðinni i-MiEV en i-MiEV rafbílarnir eru einnig seldir í Evrópu sem Peugeot iOn og Citroen C-Zero og nær innköllunin einnig til þeirra, enda um sama bíl að ræða. Innköllunin er sú stærsta hingað til á umhverfisvænum bílum.

Í heimalandinu Japan verða innkallaðir tæplega 3,400 i-MiEV rafbílar og rúmlega 2.400 MINICAB-MiEV bílar, en þeir eru i-MiEV sem sérstaklega eru úr garði gerðir sem leigubílar.

Í Evrópu nær innköllunin til um 8.900 bíla af i-MiEV gerð (og Peugeot iOn og Citroen C-Zero).

Þessi innköllun er vissulega ekki stór í sniðum miðað við þær innkallanir sem sést hafa á hefðbundnum bílum bílaframleiðenda, sem stundum hafa innkallað á einu bretti milljónir bíla. En miðað við fjölda þeirra i-MiEV bíla sem í umferð eru, nær þessi innköllun til um helmings bílanna.

Sá galli sem um ræðir hefur ekki svo vitað sé valdið slysi, en  hann er samkvæmt frétt frá Mitsubishi sá að rafknúin loftdæla sem gefur frá sér hjálparloft þegar hemlað er, kann að vera gölluð eða aflöguð. Ef svo er, veldur gallinn því að ástig á hemlana verður þyngra en það á að vera og hemlunarvegalengd kann að verða lengri en ef dælan virkar að fullu.

Markaðssérfræðingur hjá Morgan Stanley Securities í Tokyo segir við fréttamann Reuters að út frá þessari innköllun sé fráleitt að draga þá ályktun að rafbílar yfirleitt séu á einhvern hátt varasamir og varasamari en aðrir bílar. Innköllunin nú sýni fyrst og fremst að Mitsubishi hafi uppgötvað hnökra í gæðaeftirliti í framleiðslunni og sé einfaldlega að bæta úr því.

Dælan sem um ræðir er hluti af aflhemlakerfi bílanna. Dæla af þessu tagi fyrirfinnst ekki í hefðbundnum bílum því að brunahreyfillinn sér hemlunum í þeim fyrir hjálparlofti.

Alls hefur Mitsubishi Motors framleitt og selt um 27.200 i-MiEV bíla frá því almenn sala á bílnum hófst árið 2009. Á Íslandi eru 8 i-MiEV bílar á skrá og í notkun og þrír eða fjórir undir merkjum PSA (Peugeot/Citroen) ýmist komnir eða rétt ókomnir.