Mitsubishi Outlander vinsælasti bíllinn á Íslandi en Toyota vinsælasti framleiðandinn 2018

Samgöngustofa hefur tekið saman gögn um nýskráningu 20 mest seldu nýju fólksbílanna eftir undirtegundum árið 2018.  Um er að ræða nýskráningar sem falla ekki undir notkunarflokkinn ,,ökutækjaleiga”.  Mitsubishi Outlander var lang vinsælasti bíllinn með 778 nýskráningar. Toyota RAV4 var í öðru sæti með 354 nýskráningar og Volkswagen Golf númer þrjú með 346 nýskráningar.  Toyota Land Cruiser naut mikilla vinsælda með 345 nýskráningar og Nissan Leaf fór einnig yfir 300 bíla markið með 323 nýskráningar.  Röð 20 vinsælustu fólksbílanna má sjá í töflu 1 hér undir.

20 mest seldu einkabílar 2018

Á heimasíðu Samgöngustofu eru gögn um nýskráningu nýrra fólksbíla á Íslandi árið 2018.  Alls voru nýskráðir 17.866 bílar til einstaklinga, bílaleiga og fyrirtækja.  Toyota var áberandi vinsælasta tegundin með 2.900 skráða bíla.  Kia kom númer tvö með 2.008 nýskráða bíla og Hyundai var í þriðja sæti með 1.496 bíla.  Nánar má sjá skráningartölurnar í töflu 2 hér undir.

Nýskráning fólksbíla eftir merki

Flestir þessarar bíla eru fluttir inn af bifreiðaumboðunum en það eru margir aðrir sem flytja inn bíla eða annast milligöngu um innflutning á nýjum bílum.  FÍB hefur ekki undir höndum skiptingu innflutnings eftir því hvort bílaumboð, aðrir lögaðilar eða einstaklingar stóðu að innflutningnum.  Ef við fellum þessa innfluttu bíla undir bílaumboðin og þau merki sem þau hafa umboð fyrir þá voru 4.984 bílar nýskráðir af tegundum sem BL hefur umboð fyrir, en BL er umboðsfyrirtæki 10 tegunda fólksbíla.

Nýskráðir bílar sem Toyota á Íslandi hefur umboð fyrir (Toyota og Lexus) eru næst flestir eða 2.976.  Undir Heklu, sem hefur umboð fyrir fjórar tegundir fólksbíla, falla 2.915 bílar, 2.796 tengjast fimm umboðsmerkjum Brimborgar og 2.367 Öskju sem er með umboð fyrir Kia og Mersedes-Benz.

Nánari upplýsingar eru um þessa niðurröðun í töflu 3 með þeim fyrirvara að ekki er um eiginlega sölu þessara bílaumboða að ræða heldur nýskráningu þeirra bifreiðategunda sem fyrirtækin hafa umboð fyrir.

Fjöldi seldra bíla eftir umboðum