Mitsubishi tekur norska rafbílamarkaðinn?

Til og með 14.mars höfðu 284 Mitsubishi i-MiEV verið nýskráðir í Noregi það sem af er árinu. Þar af hafði tæpur helmingur eða 102 verið skráðir í marsmánuði. Mitsubishi i-MiEV er nú í 12. sæti mest seldu bíla í Noregi. Frá þessu er greint á norskum frétta- og upplýsingavef sem heitir Grönn Bil. Þar er ennfremur greint frá því að alls hafi verið gerðir yfir 600 kaupsamningar um i-MiEV bíla. Samkvæmt því eru þá rúmlega 300 pantanir óafgreiddar.

Á síðasta ári seldust í Noregi samtals 694 rafbílar af öllum tegundum. Salan á i-MiEV á þessu ári er athyglisverð í því ljósi og virst gæti sem þessi bílgerð sé hreinlega að leggja norska rafbílamarkaðinn undir sig.

FÍB  blaðið hefur lítillega kynnst i-MiEV í daglegum þéttbýlisakstri. Hann er að flestu leyti afar líkur hefðbundnum sjálfskiptum smábíl í notkun, ágætlega frískur í upptakinu og bærilega rúmgóður. Uppgefið drægi hans er sagt vera hátt í 200 kílómetrar en reikna má með að það minnki umtalsvert þegar verulega kólnarí veðri. Í það minnsta er það reynsla þeirra sem prófað hafa rafbíla í vetraraðstæðum og FÍB hefur verið í sambandi við. 

Grönn Bil spáði því um áramótin að á árinu 2011 myndu  Norðmenn kaupa 1500-2500 rafbíla. Það sem af er árinu er Mitsubishi i-MiEV lang söluhæsti rafbíllinn í Noregi og salan á honum einum stefnir í það að uppfylla hærri töluna í spá Grönn Bil.