Mohammed Ben Sulayem kjörinn forseti FIA

Mohammed Ben Sulayem frá Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum var í dag kjörinn forseti Alþjóða akst­ursíþrótta­sam­bands­ins, FIA, á þingi þess sem haldið er í París þessa dagana. Sulayem hafði betur í forestaslagnum við Bretann Graham Stoker. Mohammed Ben hlaut 67% atkvæða en Stoker 32%.

Mohammed Ben Sulayem, sem er 60 ára að aldri, er einn fremsti bílaíþróttamaður sem fram hefur komið í arabaheiminum sem spannaði á þriðja áratug. Árið 2008 varð hann einn af varaforsetum FIA og árið 2013 var hann skipaður formaður nýrrar verkefnisstjórnar sem vann að þróun mótoríþrótta sem FIA setti á laggirnar.

Í júlí 2012 var Sulayem sæmdur heiðursnafnbót sem doktor í raunvísindum frá háskólanum í Ulster, sem viðurkenningu fyrir þjónustu sína við íþróttir, borgaralega forystu og vinnu sína í góðgerðarmálum.

Fráfarandi forseti, Frakkinn Jean Todt, hafði leitt samtökin frá árinu 2009. Todt tók þá við forsetaembættinu af Bretanum Max Mosley sem lést á þessu ári.

Sulayem, sem kjörinn var til fjögura ára, sagði að honum væri sýndur mikill heiður og þakkaði aðildarfélögunum fyrir það traust sem honum væri sýndur. Hann þakkaði Soker fyrir heiðarlega og drengilega kosningabaráttu.

,,Ég vil ennfremur þakka fráfarandi forseta, Jean Todt fyrir allt sem áunnist hefur innan samtakanna í forsetatíð hans á sl. 12 árum. Ég ætla að halda þessu starfi góða áfram og taka enn frekari skref fram á við,“ sagði Sulayem í þakkaræðu sinni.

Jean Todt sagði hreyfingin öll gæti værið ánægð með sinn árangur á liðnum árum. Ég vil þakka aðildarfégögunum fyrir eldmóð og seiglu í sínu starfi og óska Sulayem til hamingju með kjörið.

,,Ég óska honum velfarnaðar í starfi og hreyfingunni alls hins besta á komandi árum,“ sagði Jean Todt.