Monte Carlo rallið

Janúar er mánuður Rally Monte Carlo rallsins. Margir sem komnir eru yfir miðjan aldur muna þessa fyrrum frægustu rallkeppni heims þegar tímamótabílar eins og Mini, Renault og Saab 95 sigruðu ár eftir ár á sjöunda og áttunda áratuginum. Síðustu 16 árin hefur keppnin verið fornbílarall en í ár er keppnin tvískipt: Annarsvegar keppa nýir WRC rallbílar (World Rally Car) og hins vegar fornbílarnir. Og þótt keppnin sé kennd við Monte Carlo furstadæmið við Miðjarðarhafsströnd Frakklands, þá fer stærstur hluti keppninnar fram víðsfjarri þeim stað.

WRC keppnin fer fram dagana 15.-20 janúar og eru 113 bílar skráðir til keppni. Upphafsstaðurinn er í bænum Valence í frönsku Ölpunum en keppnin endar í Monaco í Monte Carlo. Margir þekktir rallgarpar eru meðal þátttakenda, þeirra á meðal má nefna Sébastien Loeb frá Frakklandi. Athygli vekur að venju hversu Finnar eru fjölmennir meðal þátttakenda, en fáir frá öðrum Norðurlöndum. Þannig er aðeins einn Norskur ökumaður skráður til keppni; Mads Ostberg.

Fornbílahluti keppninnar sem nefnist Rally Monte Carlo Historique hefst svo þegar „alvöru“ rallbílarnir hafa lokið keppni, eða 25. janúar til 1. febrúar nk. Hún er miklu stærri að öllu umfanfi en WRC keppnin en skráðir eru 314 fornbílar til keppni.

Bílarnir í þessum hluta verða að vera minnst 30 ára gamlir og af tegundum og gerðum sem áður hafa tekið þátt. Fjórhjóladrif er ekki leyft.

Fornbílarnir leggja af stað frá Barcelona, Glasgow, Reims, Kaupmannahöfn og Monaco og safnast svo saman í Valence. Sérleiðirnar í Ölpunum eru flestar þær sömu og nýju rallbílarnir munu hafa áður farið. Fornbílakeppnin endar svo föstudaginn 1. febrúar í Monaco.