Mörg bílaleiðsögutæki nú ólögleg í Sviss

 http://www.fib.is/myndir/Switzerlandflag.jpg

Í Sviss er nú bannað að nota GSM leiðsögutæki í bílum ef upplýsingar um staðsetningu hraðamyndavéla eða hraðamælingastaða við vegi landsins hafa verið forritaðar í hugbúnað og kortagrunna tækjanna. Ný lög um þetta bann tóku nýlega gildi í landinu.

Í mörgum þeirra leiðsögutækja sem nú  fást á almennum markaði, m.a. hér á Íslandi, er búið að forrita þessar upplýsingar í tækin og gefa þau þá ökumanni merki þegar hraðamyndavél er framundan. Einnig getur fólk sótt sér þessar upplýsingar á Netið og hlaðið þeim inn í leiðsöguræki sín áður en lagt er af stað í bílferðalag um Evrópu.

Þetta nýja bann Svisslendinga getur að sjálfsögðu haft áhrif á Íslendinga sem eru á ferð á skíðaslóðum um þessar mundir og hafa eigið leiðsögutæki með í för. Rétt er því að benda þeim sem hyggja á akstur í Sviss framvegis að aðgæta hvort þessar upplýsingar séu í leiðsögutækjum þeirra eða í hugbúnaðinum.http://www.fib.is/myndir/Navigation.jpg

Umferðareftirlit lögreglu er vel virkt í Sviss og ef lögregla stöðvar bíl og finnur í honum leiðsögutæki með fyrrnefndum upplýsingum þarf að greiða talsvert háa sekt auk þess sem leiðsögubúnaðurinn er gerður upptækur á staðnum. Yfirlögfræðingur FDM, systurfélags FÍB í Danmörku segir að margir viti hreinlega ekki hvort þessar upplýsingar eru í tækjum þeirra. Hann biður því fólk að aðgæta hvort svo sé og ef þær eru í tækinu, að geyma það í farangursrými bílsins en hafa það ekki uppi við meðan ekið sé um Sviss. Ef upplýsingarnar eru í tækinu og það uppi við þá gildi einu hvort slökkt sé eða kveikt á því, maður fái sekt og missi tækið.