Morgan Aeromax verður að veruleika

http://www.fib.is/myndir/Morgan-Aeromax-litil.jpg
Morgan Aeromax.

Á bílasýningunni í Genf í Sviss í fyrra sýndi sportbílagerðin Morgan í Englandi hugmyndabílinn Aeromax. Nú er Aeromax að verða að veruleika því ákveðið hefur verið að handsmíða nákvæmlega 100 bíla seríu. Smíðin hefst árið 2008. Byggðir verða tveir bílar á viku og lýkur verkinu þegar hundraðasti bíllinn verður tilbúinn snemma árs 2009 þegar Morgan bílasmiðjan verður 100 ára.

Morgan Aeromax hugmyndabíllinn var byggður og sýndur í Genf til að sýna og sanna hversu sveigjanleg lítil bílasmiðja eins og Morgan getur verið. Yfirbyggingin var og verður á raðsmíðuuðubílunum 100 úr áli og er að stórum hluta svipuð þeirri sem er á Morgan Aero Eight. Bíllinn mun uppfylla fyllilega allar ströngustu öryggis- og styrkleikakröfur sem gerðar eru til bíla í bæði Evrópu og Bandaríkjunum. Í honum verða öryggisloftpúðar af nýjustu og bestu gerð og sjálfvirkur búnaður sem fylgist með loftþrýstingi í hjólbörðum, sjálfvirk lofkæling/-ræsting svo fátt eitt sé nefnt.

Undirvagninn verður úr sterku léttstáli en styrktargrind yfirbyggingarinnar hins vegar úr viðnum aski og verður hann að hluta sýnilegur í innréttingu og hurðum bílsins og þá sérstaklega póleraður. Sama verður að segja um mælaborðið, það verður sömuleiðis úr póleruðum aski.

Aeromax verður eins og allir Morganbílar og flestir meiriháttar sport- og akstursbílar, afturhjóladrifinn. Vélin verður 4,4 lítra V8 333 ha. Bensínvél og sex gíra gírkassa frá ZF í Austurríki. Hjólin undir eðalvagninum verða 20 tommu léttmálmsfelgur með BF Goodrich lágprófílsdekkjum. Aeromax verður 4,5 sekúndur í hundrað úr kyrrstöðu og bensíneyðslan í blönduðum akstri 10,9 á hundraðið.

Hægt er að panta eitt eintak nú þegar og verðið við verksmiðjudyr verður 136.000 evrur eða um 13,2 milljónir króna.
http://www.fib.is/myndir/Morgan-Aeromax-stor.jpg