Motogiro d´Italia

http://www.fib.is/myndir/Motogiro-logo.jpg

Ein elsta rallkeppni á Ítalíu nefnist Motogiro d´Italia. Þetta er mótorhjólarall sem var mjög vinsælt og fjölsótt um miðja síðustu öld. Keppnin var endurvakin fyrir sjö árum og vilja mótshaldarar hefja keppnina til fyrri vegs og virðingar. Í ár fer hún fram  dagana 19.-24. maí á austanverðri Sikiley.

Keppnin sem er kostuð að mestu af Ducati mótorhjólaframleiðandanum ítalska er opin öllum  tegundum mótorhjóla og er keppt í þremur flokkum. Fyrsti flokkurinn er Vintage Racing Class eða fornhjólaflokkur. Fjöldi keppenda í flokknum er takmarkaður við 120. Þá má vélarstærð vera allt að 175 rúmsm og hjólin mega ekki vera yngri en árgerð 1957. Vélarstærðarmörkin eru þau sömu og voru í upphaflegu Motogirokeppninni.
http://www.fib.is/myndir/Motogiro1.jpg
Næsti flokkur er Taglioni Memorial Class en hann miðast við hjól framleidd milli áranna 1968 og 1978 og hafa 350 rúmsm stórar vélar eða stærri. Þessi flokkur er til að minnast þess tíma þegar verkfræðingurinn Fabio Taglioni hannaði og þróaði frægar tveggja strokka mótorhjólavélar Ducati.

Síðasti flokkurinn er svo Touring Class. Hann er ætlaður öllum þeim sem vilja taka þátt í samveru og samakstri með öðrum, á nýjum og nýlegum hjólum auk eldri hjóla. Í þessum flokki er aðaláherslan á akstur og samveru en minni á keppni, enda er flokkurinn hugsaður fyrir fólk með áhuga fyrir mótorhjólum en litla sem enga keppnisreynslu eða áhuga fyrir henni.
http://www.fib.is/myndir/Motogiro-2.jpg
Ef einhverjir sem lesa þessa frétt hefðu áhuga á að taka þátt í  þessu „sögulega“ ralli sem fram fer í mjög fallegu umhverfi austurstrandar Sikileyjar þar sem áfangarnir eru sérstaklega valdir með tilliti til náttúrufegurðar, þá er hægt að hafa samband við keppnishaldara sem er fyrirtæki sem nefnist Dream Engine. Heimilisfangið er  Via San Mamolo 155 -40136 Bologna. Síminn er  +39 051 6440881 og fax +39 051 3394319.
info@motogiroditalia.com
www.motogiroditalia.com