Mótorhjól með ABS hemlum

Frá og með árinu 2016 hefst innleiðing nýrra mótorhjóla með læsivarða ABS hemla á Evrópska efnahagssvæðinu. Öll mótorhjól með vélar frá 125 rúmsm að rúmtaki sem hljóta gerðarviðurkenningu frá og með 1. janúar 2016 verða að vera með ABS hemla. Og frá og með 1. janúar 2017 verða öll mótorhjól, líka þau litlu að hafa læsivarða hemla. Minnstu hjólin geta þó sloppið með það að vera með samtengda hemlun fyrir bæði fram- og afturhjól en ekki aðskilda eins og algengast hefur verið.

Læsivarðir hemlar eru mjög mikilvægur  öryggisbúnaður og segja má að hann sé enn mikilvægari fyrir mótorhjól en bíla. Ástæðan er sú að snúningur hjólanna er undirstaða þess að mótorhjólaökumaður heldur jafnvægi. Um leið og hjól stöðvast, t.d. við hemlun, er jafnvægið rokið út í veður og vind. Árið 2011 létu um fimm þúsund mótorhjólaökumenn lífið á evrópsku vegunum. Talið er að ABS hemlakerfi í hverju mótorhjóli hefði forðað amk. fjórðungi þessara ótímabæru dauðsfalla. Bosch er stærsti framleiðandi ABS kerfa fyrir ökutæki og hefur framleitt slík kerfi fyrir mótorhjól síðan 1994. ABS kerfi frá Bosch eru nú í um 750 þúsund mótorhjólum í Evrópu og hjá Bosch er stöðugt unnið að framþróun þeirra. Ætlunin er að bæta þau stig af stigi svo þau nái að vernda ökumenn mótorhjóla í öllum aðstæðum sem upp geta komið.