Mr. Bean að selja bílinn sinn

Breski gamanleikarinn, bílaáhugamaðurinn og vélaverkfræðingurinn Rowan Atkinson, sem margir þekkja sem mr. Bean úr samnefndum sjónvarpsþáttum og úr kvikmyndum sem ofurnjósnarann Johnny English, hefur auglýst einn af bílum sínum til sölu.
Bíllinn er reyndar viðgerður eftir tjón sem varð á honum þegar Atkinson missti hann út af vegi fyrir nokkrum árum. Viðgerðin var ansi dýr á mælikvarða venjulegra launþega á Íslandi en hún mun hafa kostað rúmar 160 milljónir ísl. króna.  Bíllinn er nú engin Toyota Aygo eða Suzuki Swift, sem reyndar eru ágætis bílar fyrir sinn hatt, heldur ofursportbíllinn McLaren F1 árgerð 1997, í ágætu lagi og ekinn 65 þúsund kílómetra. Og verðið sem Atkinson vill fá fyrir bílinn er heldur ekki á hvers manns færi – 1.630 milljónir ísl. króna.