MultiAir - bensínvélatækni frá Fiat

http://www.fib.is/myndir/MultiAir.jpg

Þótt Fiatbílar hafi stundum átt misjöfnu gengi að fagna þá verður því varla móti mælt að sumar gerðir Fiatbíla hafa verið afar vel heppnaðar og dugað eigendum sínum vel og lengi, En burtséð frá því hafa Fiatmenn í Torino verið flestum snjallari í hönnun bæði bíla og bílvéla. Þannig kemur samrásarinnsprautunin - Common-Rail fyrir dísilvélar upphaflega frá Fiat, en sú tækni var einfaldlega bylting - allt í einu varð dísilvélin samkeppnisæf að öllu leyti við bensínvélina í fólksbílum - og gott betur. Loks voru fram komnar aflmiklar, hljóðlátar, mjög sparneytnar og lítið mengandi dísilvélar.

Nú er Fiat að koma fram með nýja bensínvél sem sem Fiatmenn segja að verði samskonar bylting fyrir bensínvélaframleiðsluna og samrásarinnsprautunin var á sínum tíma fyrir dísilvélina. Vélina, eða hina nýju tækni hennar nefna Fiatmenn MultiAir. MultiAir vélin kemur fyrst fram í haust í smábílnum Alfa Romeo MiTo. Að sögn Fiat verður aflmesta MiTo-MultiAir vélin 170 ha. en einungis 1,4-lítrar að rúmtaki.

Í MultiAir vélinni opnast innsogsventlarnir  og lokast alveg óháð snúningsstöðu kambássins. Þetta er táknað með rauða litnum á grafísku myndunum tll hægri í myndinni hér fyrir neðan. Lárétti ásinn í hverju grafi táknar tímann, en sá lóðrétti opnun ventils og hvíta kúrfan snúning kambássins.

Alfa Romeo MiTo smábíllinn er þegar kominn á markað í Evrópu með sömu vélum og þegar fyrirfinnast í t.d Fiat Punto o.fl gerðum og eru 90, 120 og 155 hestafla. En hinar nýju MultiAir vélar sem koma með haustinu í MiTo verða í þremur aflútfærslum; 105, 135 og 170 hestafla. Allar verða þessar vélar með túrbínum og allar einungis 1,4 lítrar að rúmtaki. 

http://www.fib.is/myndir/MultiAir.jpg


Vélahönnunardeild Fiat, Fiat Powertrain Technologies hefur unnið að þróun þessarar nýju tækni um nokkurt skeið. Þar segja menn að MultiAir-tæknin sé ámóta byltingarkennd fyrir bensínvélina sem slíka, og samrásarinnsprautunartæknin reyndist fyrir dísilvélarnar. Um leið minna þeir á að það var einmitt  Alfa Romeo 156 sem var fyrsti fólksbíllinn í heiminum sem knúinn var dísilvél með samrásarinnsprautun.

Í MultiAir vélum er það olíuþrýstingur sem stjórnað er af tölvu, sem opnar og lokar innsogsventlunum óháð því hvernig afstaða kambássins er hverju sinni. Með þessu móti má stjórna eldsneytisbrunanum betur þannig að hann verði ávallt eins og best verður á kosið hvernig svo sem álagið er á vélina hverju sinni. Þetta dregur verulega úr bensíneyðslunni og sömuleiðis verulega úr mengun frá vélinni. Að sögn tæknimanna Fiat eykur búnaðurinn aflið um 10 prósent og vinnsluna, eða togið um 15 prósent. Jafnframt minnkar búnaðurinn bensíneyðsluna um 10 prósent og útblástur natríumoxíða minnkar um 60 prósent og útblástur annarra öragna um 40 prósent. Allt þetta er ekkert smáræði ef rétt reynist.