Munu bílastæðin í Hörpu hækka öll bílastæðagjöld í Reykjavík?

Ætla má að bílastæðin undir tónlistarhöllinni Hörpu eigi eftir að hafa mikil áhrif á verðlagningu stöðugjalda í borginni almennt. Bílastæðakjallarinn undir Hörpu var mjög dýr í byggingu enda neðan sjávarmáls. Í mars sl. var kostnaður við bílastæðahúsið metinn á 2,9 milljarða króna að því er fram kemur í fréttaaskýringu í Morgunblaðinu 10. nóvember sl. Alls eru undir Hörpu 545 bílastæði þannig að hvert og eitt stæði hefur þá kostað í kring um 5,5 milljónir króna.

Út af fyrir sig getur þessi mikli kostnaður skýrt hátt verðlag á bílastæðum Hörpu, en 200 kr. kostar að leggja þar bíl í klukkutíma. Hálfs dags staða (4 klst) kostar 650 krónur og heill dagur kostar 1.200 krónur. Loks er hægt að kaupa mánaðarkort sem sem gilda fyrir þá sem leggja á daginn milli kl. 8.00-18.00. Slíkt kort eða dagpassi kostar  11 þúsund krónur. Til samanburðar þá er algengasta verð í bílastæðahúsum Reykjavíkurborgar  80 krónur fyrir fyrsta klukkutímann en eftir hann 50 kr. á tímann. Sólarhringsgjald á mánuði hefur svo fengist á 4.000 til 10.600 krónur.

Vegna þessa verðmunar þá er líklegt að þeir sem þurfa að leggja í miðborg Reykjavíkur  leiti fyrst að lausum bílastæðum annarsstaðar en í Hörpu og leigutekjur af Hörpustæðum verði heldur rýrar þar sem verðið getur varla talist samkeppnisfært við annað sem í boði er. Hvað gera menn þá?

Höskuldur Ásgeirsson framkvæmdastjóri fasteignafélags Hörpu sem á 420 bílastæðanna (Önnur félög, þar með talinn Bílastæðasjóður Reykjavíkur eiga hin 125 stæðin), segir í samtali við Morgunblaðið í fyrrnefndri fréttaskýringu frá 10. nóv. að ekki sé mikil arðsemi fólgin í því að reisa og reka síðan bílastæðahús á núverandi gjaldskrá Bílastæðasjóðs Reykjavíkur. Þær upphæðir sem greiddar séu almennt fyrir bílastæði í Reykjavík séu mun lægri en gerist í sambærilegum borgum í nárgrannalöndunum. Síðan segir Höskuldur: „En við teljum að Reykjavík þurfi að hækka sín bílastæðagjöld, sem hafa verið nánast óbreytt síðustu tíu árin.“

Þetta þýðir væntanlega að þeir sem reka bílastæðakjallarann undir Hörpu eru þegar byrjaðir að leita hófanna með það að bílastæðagjöld í borginni verði hækkuð til samræmis við gjaldskrá Hörpu.  Og tregðist borgarryfirvöld við, má þá ekki  næst búast við því að Hörpumenn beri upp vanda sinn við Samkeppnisstofnun vegna skekktrar samkeppnisstöðu sinnar gagnvart bílastæðarekstri borgarinnar? Við bíðum og sjáum til!