N-1 birtir ekki upplýsingar um eldsneytisverð á heimasíðu sinni

http://www.fib.is/myndir/Bensinbyssa2.jpg

Þegar gamla Olíufélagið skipti um ásýnd nýlega og hætti að nota Esso sem sitt megineinkenni og tók upp nafnið N-1 eftir að hafa sameinast Bílanausti, hætti félagið um leið að birta á heimasíðu sinni upplýsingar til viðskiptavina sinna um eldsneytisverð. Þetta er að mati FÍB stórt skref afturábak hjá félaginu sem með nafnbreytingunni vildi straumlínulaga sig, verða alhliða þjónustufyrirtæki sem veitir … „fólki og fyrirtækjum afburða þjónustu á sviði bílatengdrar starfsemi ásamt heildarlausnum í rekstrarvörum og eldsneyti til fyrirtækja,“ eins og segir á heimasíðu fyrirtækisins.

Netið og heimasíður fyrirtækja eru orðnar mjög mikilvægar fyrir fyrirtækin sjálf og fyrir neytendur og viðskiptavini fyrirtækjanna. Heimasíðan er í raun helsti útstillingargluggi og viðskiptavaki fyrirtækja og í útstillingargluggum er t.d. verslunum skylt að birta verð þess varnings sem þar er sýndur. Gamla Esso birti alla tíð á sinni heimasíðu góðar upplýsingar um eldsneytisverð sem voru bæði skýrar og aðgengilegar og er sú stefna sem arftakinn N-1 hefur tekið að birta þessar upplýsingar alls ekki - hrein afturför. FÍB hefur komið þessari skoðun félagsins á framfæri við markaðsstjóra N1 og við Neytendastofu.

Það má segja hinum olíufélögunum til lofs að þau hafa ekki farið að dæmi N-1 heldur birta öll áfram upplýsingar um eldsneytisverð á sínum afgreiðslustöðum sem er lofsvert. Þessar upplýsingar eru til sérstakrar fyrirmyndar hjá Skeljungi því að auk almenns dagsverðs sem birtist undir linknum –Eldsneytisverð- má einnig auðveldlega nálgast verðlista allt aftur til ársins 2003 eins og sjá má á heimasíðu Skeljungs . Þetta er til fyrirmyndar.