N1 hækkar enn álagninguna í skjóli gengisfalls

http://www.fib.is/myndir/Bensin_1.jpg

Olíufélagið N1 hækkaði í gær eldsneytisverðið um fjórar krónur. Talsmaður félagsins segir í samtali við Morgunblaðið í morgun að ástæða hækkunarinnar sé lækkun á gengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadal. Núna fyrir hádegi í dag hafði Olís farið að dæmi N1 og hækkað um nákvæmlega sömu upphæð. Verðið var óbreytt hjá Skeljungi, Orkunni og Atlantsolíu.

FÍB fylgist náið með verði á eldsneyti og mælir frá degi til dags álagningu olíufélaganna miðað við heimsmarkaðsverð, gengi krónu gagnvart dollar og neysluvísitölu. Undanfarinn mánuð, eftir að efnahagsþrengiingarnar dundu yfir, hefur mælst ein hæsta álagning olíufélaganna á eldsneyti nokkru sinni. N1 sem stærsta olíufélagið leiðir þá þróun. Ráðamenn þessa félags ákváðu í gær að ganga enn lengra í þessa átt í gær með fjögurra króna hækkuninni.http://www.fib.is/myndir/Bensin_2.jpg

Olíuverðið á heimsmarkaði hefur farið hríðlækkandi undanfarnar vikur. Vegna þeirra efnahagsþrenginga sem dunið hafa yfir okkur og hruni á gengi krónunnar þá hafa Íslendingar ekki fundið mikið fyrir þessum lækkunum og minna en ella vegna hækkandi álagningar olíufélaga. Hækkunin í gær er þrátt fyrir fullyrðingu talsmanns N1 óþörf, því að síðasta lækkun heimsmarkaðsverðs á eldsneyti var það mikil að lækkun á gengi krónunnar í gær úr 128,78 í 134,23 gagnvart dollar náði ekki að vega upp á móti henni. Þvert á móti hefði verið eðlilegt að N1 hefði lækkað verðið um 35 aura. En N1 og síðan Olís í kjölfarið hækkaði um fjórar krónur.

Í fyrrnefndri frétt á heimasíðu N1 um að flagga íslenska fánanum daginn út og inn segir m.a: „Tilgangurinn er einfaldlega sá að sýna samstöðu í þeim erfiðleikum sem ganga yfir þjóðina þessa dagana.“, segir Hermann Guðmundsson, forstjóri N1. „Íslenski fáninn er sameiningartáknið og oft var þörf, en nú er nauðsyn.“ Þá hefur N1 aukið vægi íslenskra vara í útstillingum í verslunum sínum. „Það er mikilvægt að íslenskt atvinnulíf fjari ekki út. Á tímum sem þessum ber okkur að styðja við bakið á íslenskum iðnaði og þjónustu eins og kostur er.“

Fyrst N1 sýnir samstöðu sína með þjóðinni og atvinnuvegunum með þessum hætti, hvernig ætti þá þjóðin og atvinnulífið að sýna N1 samstöðu?

Eftir þessa hækkun N1 og Olís kostar  bensínið hjá þeim kr. 158,70 og dísilolían kr. 182,40. Verðið hjá Orkunni er yfirleitt kr. 153,10 fyrir bensínið og kr. 174,80 dísilolían. Hjá Atlantsolíu er bensínverðið 153,20 og dísilverðið 174,90.