Nagladekkin bönnuð í dag

Frá og með deginum í dag eiga negldu vetrardekkin að vera farin undan bílunum og sumardekkin komin undir í þeirra stað. Lögin banna akstur á negldum dekkjum frá og með 15. apríl til og með 31. október – en ekki þó alveg -

Þótt sumardekkjatíminn sé runninn upp samkvæmt lagabókstafnum fara veðrin ekki stíft eftir honum og eru enn válynd. Í morgun á sjálfan nagladekkjabannsdaginn var höfuðborgarsvæðið snævi þakið og flughálka á götum og gekk á með dimmum éljum. Þá hefur færð verið misjöfn á fjallvegum víða um land undanfarna daga að deginum í dag meðtöldum. Holtavörðuheiði hefur verið ógreiðfær í dag og snjór og hálka á meginleiðum yfir heiðar víða um land.

En sem betur fer er undanþága í naglabannslögunum sem heimilar áframhaldandi nagladekkjaakstur ef aðstæður eru þannig – eins og í dag. Þannig er ástæðulaust að rjúka upp til handa og fóta og skipta yfir á sumardekkin meðan veðurfar er eins og það er nú. Sú venja hefur reyndar skapast mörg undanfarin ár að ekki er farið að beita sektum á þá sem enn eru á negldu fyrr en undir mánaðamótin apríl-maí og ætla má að tími snjóbylja og frosta sé liðinn hjá.