Nagladekkin öruggust

Komið er annað og nýtt hljóð í strokkinn hjá sænsku umferðaröryggisstofnuninni Trafikverket en fyrir nokkurnveginn nákvæmlega ári. Þá var sagt að nýjustu ónegldu vetrardekkin væru nokkurnveginn jafnörugg í vetrarfærinu og negld vetrardekk. Ný rannsókn sem Trafikverket hefur nú birt segir hins vegar þveröfugt - að negld vetrardekk dragi úr dauðaslysalíkum um næstum helming.

Nýja rannsóknin segir að samanborið við akstur á ónegldum vetrarhjólbörðum þá minnki líkurnar á dauðaslysum um 42 prósent við það að skipta yfir á neglda vetrarhjólbarða. Trafikverket ráðleggur nú jafnframt þeim sem aka á bílum sem ekki eru búnir ESC skrikvarnarbúnaði, að vera hreint alls ekki á ónegldum dekkjum í vetrarfæri. Ennfremur hvetur Claes Tingvall forstjóri Trafikverket þau sveitarfélög sem hyggjast banna negld vetrardekk, að endurskoða þær áætlanir. Hann segir við TT fréttastofuna að nagladekkjabann muni hafa í för með sér fjölgun dauðaslysa. Geta má þess að Claes Tingvall mun sækja umferðarþing á Íslandi sem haldið verður í nóvember nk. Þá gefst væntanlega tækifæri til að spyrja hann nánar út í þessar niðurstöður.

Samkvæmt þessari rannsókn Trafikverkets virðist sem engu máli skipti hins vegar hvort bílar sem búnir eru ESC skrikvörn séu á negldum eða ónegldum vetrardekkjum. Skýrsluhöfundar segja þó að gera þurfi meiri rannsóknir á þessu. Fyrr sé ekki mögulegt að slá neinu föstu. Hér er að finna útdrátt úr skýrslu trafikverket sem PDF skjal.

Út úr útdrætti skýrslunnari má lesa að dauðaslysum hefur farið fækkandi mörg undangengin ár og útlit sé fyrir að í ár verði þau með fæsta móti. En þegar rýnt er í akstursaðstæður þar sem dauðaslys hafa orðið kemur í ljós að mikill munur er á því hvort vegyfirborð var þurrt, blautt eða á því var ísing eða snjór. Greinilegt er að vetrarfærið krefst stöðugt fleiri mannslífa en þegar vegur er auður.

Frá 2000-2001 urðu um 40 prósent dauðaslysa í vetrarfæri. Sl. vetur var þessi prósentutala komin upp í 60%. Það er því augljóslega afar mikilvægt að rannsaka í smáatriðum hvernig slys í vetrarfæri eiga sér stað.

Stærstur hluti dauðaslysanna í vetrarfæri urðu eins og við mátti búast í norðlægari hlutum Svíþjóðar. Á Norrbotten svæðinu norður af Eystrasalti verða 90% dauðaslysa í vetrarfæri í Svíþjóð. Til samanburðar verða einungis 13% þessara slysa á Skáni sem er syðsti hluti landsins.

En þegar bornar eru saman slysaniðurstöður eftir dekkjagerðum stendur það upp úr sem fyrr hefur verið nefnt, að dauðalíkur í vetrarfæri minnka um 42 prósent ef ekið er á negldum vetrardekkjum. En engu að síður gerast þessi slys í höfuðatriðum á sama hátt hvort sem bíllinn er á negldum eða ónegldum dekkjum: Bíllinn skrikar og yfirstýrir og verður þannig verr viðráðanlegur og ökumenn missa stjórnina. Bílar með ESC skrikvarnarbúnaði á hinn bóginn grípa „sjálfir“ inn í atburðarásina, hvort heldur sem þeir eru á negldu eða ónegldu. ESC búnaðurinn er því ómetanlegt hjálpartæki sem forðar slysum í tæka tíð.

Trafikverkets kemst að þeirri niðurstöðu að alls ekki sé viturlegt að aka á ónegldum vetrardekkjum í vetrarfæri á bílum sem ekkert ESC kerfi hafa. Sé bíllinn á hinn bóginn með ESC kerfi, skipti naglarnir minna máli. Á þessu þurfi þó að gera frekari rannsóknir.