Nagladekkjabann lagar ekkert

Staðbundið bann við notkun negldra vetrardekkja hefur engin mælanleg jákvæð áhrif á heilsufar íbúa né að hægt sé að mæla minni skaðleg umhverfisáhrif af völdum umferðar, þar sem nagladekkjabann ríkir. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar sem gerð var fyrir sænska þingið.

Rannsóknaþjónusta sænska þingsins kannaði málið að beiðni tveggja þingmanna sænska miðflokksins, þeirra Ulf Berg og Lars Beckman. Tilefnið var bann við notkun negldra vetrardekkja innan borgarmarka Stokkhólms, Gautaborgar og Uppsala. Bannið var einmitt sett til þess að draga úr meintu svifryki af völdum negldra dekkja og skaðlegum áhrifum ryksins á heilsu fólks og á umhverfið. Niðurstaða rannsóknarinnar er í stuttu máli sú að engin mælanleg jákvæð áhrif staðbundins banns við negldum dekkjum hafi fundist. 

– Takmarkanir og bann við notkun negldra vetrarhjólbarða dregur sáralítið úr svifryksmengun en stefnir hinsvegar umferðaröryggi í voða. Góð og markviss götuþrif eins og t.d. stunduð eru í Helsinki, er mun áhrifaríkari aðferð til að draga úr svifryksmengun, segir Niklas Stavegård umferðaröryggissérfræðingur hjá Motormännens Riksförbund, systurfélagi FÍB í Svíþjóð aðspurður um nýju rannsóknarskýrsluna.