Nagladekkjum í Reykjavík fækkar

Nagladekkjum fækkar í Reykjavík samkvæmt talningu sem gerð var um mánaðamótin. Tæplega þriðjungur reyndist vera á nöglum nú í byrjun desember. Reykjavíkurborg mælir með góðum vetrardekkjum til að draga úr mengun, hávaða og sliti á götum.

Hlutfallið milli negldra og ónegldra dekkja undir bifreiðum í Reykjavík er reiknað út sex sinnum yfir veturinn. Talning fór fram 29. nóvember. Hlutfallið skiptist þannig að 28,2% ökutækja voru á negldum dekkjum og 71,8% voru á öðrum dekkjum. Hlutfall negldra dekkja er lægra en á svipuðum tíma í fyrra þegar það var 33,9% .

Fyrir tveimur árum var það töluvert hærra, eða 39,6% og fyrir þremur árum var það sambærilegt, eða 29,5%. Hlutfallið hefur ekki verið svona lágt á þessum árstíma í níu ár, eða síðan veturinn 2014 þegar hlutfallið var 25%.

Þegar þessar tölur eru skoðaðar er vert að hafa í huga að veturinn hefur verið mildur í Reykjavík fram að þessu.