Nani Roma á toppnum

Mini bílar hafa greinilega tekið þann sess sem Mitsubishi bílarnir höfðu á árum áður í Dakar rallinu, þessari erfiðu torfærurallkeppni bíla, mótorhjóla, fjórhjóla og trukka - allt í einni bendu. Sigurvegarinn varð Mini ökumaðurinn Nani Roma. Margfaldur sigurvegari til fjölda ára á mótorhjólum fyrst, en síðar á bílum, Stephane Peterhansel, varð í öðru sætinu.

Peterhansel hafði verið mjög sigurstranglegur í síðustu áföngum keppninnar en hann þótti fara sér furðu hægt í síðasta áfanganum og engu líkara væri en að hann væri að gefa liðsfélaga sínum í Mini-liðinu sigurinn eftir.

Spánverjinn sigursæli, Carlos Sainz sem  áður keppti fyrir Volkswagen ók að þessu sinni á svokölluðum Buggy bíl sem ekki er fjórhjóladrifinn heldur einnungis með drif á afturhjólum. Sainz er mikill keppnismaður og var í fremstu röð í keppninni allt þar til hann lenti í óhappi og bíll hans varð óökufær.

Sigurvegarinn ár, Nani Roma er eins og liðsfélagi hans; Stephane Peterhansel, gamall mótorhjólakeppandi en hann sigraði í flokki mótorhjóla í Dakar rallinu fyrir nákvæmlega 10 árum.