Nanjing Automotive kaupir MG-Rover

The image “http://www.fib.is/myndir/Rover-25.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Rover 25.
Gengið var frá sölu á bílaverksmiðju þrotabús  MG-Rover í Longbridge í Englandi sl. föstudag. Kaupandinn er kínverska bílafyrirtækið Nanjing Automotive en ekki SAIC eins og búist hafði verið við. Tíðindunum um söluna er tekið með takmörkuðum fögnuði af hálfu samtaka stéttarfélaga sem óttast að stór hluti framleiðslunnar og þar með vinnunnar við hana verði fluttur til Kína.
Þrír aðilar bitust undir það síðasta um að kaupa MG-Rover; kínversku fyrirtækin tvö og breski fjármálamaðurinn David James sem sérhæfður er í að endurreisa og endurfjármagna fyrirtæki sem komin eru að fótum fram. Þekktastur er hann fyrir að hafa endurlífgað aldamóta-kúluhúsið í London – The Millennium Dome.
Þegar MG-Rover fór á hausinn í aprílmánuði misstu um 6 þúsund manns vinnuna. Ólíklegt er að þessi störf endurheimtist öll því að talsmenn kínverska fyrirtækisins hafa sagt að einungis hluti af fyrri starfsemi verði áfram í Longbridge. Stærsti hluti framleiðslunnar verði fluttur til Kína. Líklegast verður það sportbílaframleiðslan sem áfram verður í Longbridge en við hana störfuðu um 2 þúsund manns. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Nanjing bílaverksmiðjan var stofnuð í Jiangsu í Kína árð 1947 og er því elsta bílaframleiðslufyrirtæki Kínverja. Fyrirtækið framleiðir aðallega vörubíla, rútur, sendibíla en einnig fólksbíla. Þar starfa 16 þúsund manns. Fyrirtækið var áður í samstarfi við Fiat en eftir kaupin á Rover vonast forráðamenn þess til að framleiða 300 þúsund bíla á næsta ári sem er talsverð aukning frá því sem nú er.
The image “http://www.fib.is/myndir/Rover-75.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Rover 75.
Í kjölfar kaupanna er búist við málaferlum um hver á hvað af reytum MG-Rover. SAIC sem átti lengi í samstarfi við MG-Rover telur sig eiga framleiðslu- og sölurétt í Kína á bæði Rover 25 og Rover 75 sem og einstökum hlutum þeirra og að nýr eigandi geti ekki si svona tekið sér þann rétt. Svipaðrar kröfu er vænst frá Honda sem átti einkarétt á nokkrum gerðum bíla, sem í raun voru Hondur með MG- Rover merki á skottlokinu og húddinu, og einstökum bílhlutum og tæknibúnaði. Raunar mun Honda hafa náð að endurheimta úr þrotabúi MG-Rover bæði teikningar og tækjabúnað til framleiðslu á fyrrnefndum MG-Rover-Hondum. Án þessara hluta er talið mjög erfitt að setja framleiðslu í gang á ný á umræddum bílum.