NEVS á nú Saab að fullu

National Electric Vehicle Sweden AB (NEVS) greiddi á föstudag sl. kaupverð þrotabús Saab í Svíþjóð og telst nú orðinn lögformlegur eigandi Saab Automobile AB, Saab Automobile Powertrain AB og Saab Automobile Tools AB.

Með í þessum kaupum er réttur til að framleiða Saab 9-3 og nýta Phoenix-grunnplötuna, öll verkfæri og tæki, verksmiðjuhús, rannsóknastofur og prófunarstöðvar. Það er sænska dagblaðið Dagens Industri sem greinir frá þessu.

Stjórnarformaður NEVS segir að nú verði undinn bráður bugur að því að hrinda af stað bílaframleiðslu á ný í verksmiðjunni í Trollhättan og framleiða nýja rafbíla í heimsklassa. Þeir muni koma á markað eftir um það bil eitt og hálft ár og vera byggðir á Saab 9-3 en með alveg nýrri gerð af rafmótorum og rafhlöðum sem verið hafi í þróun undanfarin ár í Kína og Japan.  

Þessir nýju bílar muni heita Saab en það verður framtíðar vöruheiti hinna nýju rafbíla. Vörumerkið sjálft (lógóið) verður hins vegar annað þar sem samningar við rétthafa um notkun þess tókust ekki.

Þegar er byrjað að ráða starfsfólk til starfa, bæði stjórnendur, tæknifólk og verksmiðjustarfsfólk. Dagens Industri segir að hátt í hundrað manns sem áður störfuðu hjá Saab hafi verið boðin vinna á ný.