Nevs vill helmingsafskriftir skulda

Nevs, núverandi eigandi Saab reynir nú að semja um niðurfellingu á helmingi skulda sinna. Nevs er kínversk-sænskt fyrirtæki sem keypti þrotabú Saab eftir að fyrri eigandinn; Hollendingurinn Victor Muller fór á hausinn og hugðist framleiða Saab 9-3 bæði sem bensínbíl eins og áður en líka sem rafbíl. Nevs kom framleiðslunni aftur af stað á bensínbílnum en salan var dræm. Tíminn var greinilega hlaupinn framhjá Saab 9-3. Engin framleiðsla er lengur í verksmiðjunni í Trollhättan en skuldir, m.a. við undirframleiðendur hafa hlaðist upp.

Nevs er nú í greiðslustöðvun og endurskipulagningu og reynir að semja við lánardrottna. Að sögn sænska ríkisútvarpsins er útlitið ekki bjart. Eigendur rúms helmings útistandandi krafna verður að samþykkja skuldaafsláttinn til að hann geti orðið að veruleika og reksturinn haldi áfram. Það er þó alls óvíst að þeir geri það því að markaður fyrir Saab bíla sem eru hátt í 20 ára gömul hönnun, er mun minni en áður var ætlað og líklegar framtíðartekjur þannig heldur rýrar. Talsmaður samtaka undirframleiðenda í Svíþjóð sagði við sænska útvarpið að hann vænti ekki neinna gleðitíðinda af þessu máli öllu á næstunni. Allt bendir semsé til þess að framleiðsla á Saab bílum sé senn alveg og endanlega búin að vera.