Neyðarástand vegna ófærðar

 Alger ófærð er nú um allt höfuðborgarsvæðið og rétt er að vara fólk við að leggja út í hana. Verið er að ryðja meginleiðir strætisvagna en húsagötur  eru meira og minna ófærar og þar ríkir víða neyðarástand sem ekki er útlit fyrir á þessari stundu að takist að lagfæra að fullu í dag.

FÍB aðstoð hefur eftir megni reynt að svara aðstoðarbeiðnum nú í morgun um startaðstoð, sem í mörgum tilfellum hefur reynst tilgangslaus þar sem bílarnir hreyfast vart úr stað eða ná að komast af stað einungis til þess að sitja svo fastir í næsta skafli eða snjóruðningi inn á aðalgötu. Og þar sem aðstoðarbílar FÍB eru venjulegir sendibílar þá eiga þeir í sömu erfiðleikum og aðrir að komast leiðar sinnar. Svipaða sögu er að segja af bílaflutningaþjónustu FÍB aðstoðar. Bílaflutningabílarnir eiga í miklum erfiðleikum líka í ófærðinni og ekki er útlit fyrir að það takist í dag að sinna öllum beiðnum sem berast um bílaflutninga.

Því skulu félagsmenn og aðrir sem rétt eiga á þjónustu FÍB aðstoðar enn og aftur hvattir til að leggja ekki út í ófærðina á fólksbílum sínum, en leita frekar annarra leiða til að koma sér í vinnu eða sinna erindum sínum, í bili að minnsta kosti.