Neyðist Ford til að selja Volvo?

http://www.fib.is/myndir/Ford-Logo.jpg http://www.fib.is/myndir/Volvo_logo.jpg
Hagræðing og endurskipulagning bandarísku bílaframleiðslunnar hjá Ford Motor Company með það að markmiði að draga úr framleiðslu á tregseljanlegum stórum og eyðslufrekum bílum en auka hana á minni og sparneytnari ganga treglega. Meginástæða þess er að sögn Auto Motor & Sport í Svíþjóð einkum fjárskortur – fyrirtækið hefur ekki, öfugt við keppinautana DaimlerChrysler og GM, handbært fjármagn til að gera starfslokasamninga við starfsmenn, gera dýrar skipulagsbreytingar í framleiðslunni og hanna og þróa nýjar gerðir bíla né mæta erfiðleikum og uppákomum eins og t.d. vinnustöðvunum.
http://www.fib.is/myndir/Jaguar-2006.jpg
Í fjölmiðlum sem fjalla um bílaiðnaðinn hefur í vikunni sem er að líða talsvert verið spáð í það hvernig Ford geti krafsað sig út úr vandanum. Ford í Bandaríkjunum hefur lengstum haft stærstan hluta tekna sinna af bílakaupalánum og almennri lánastarfsemi. En með samdrætti í bílasölu undanfarið hafa þessar tekjur rýrnað að sama skapi. Því kann svo að fara að Ford verði að selja frá sér einhver þeirra vörumerkja sem fyrirtækið á og rekur. Þá þykir liggja beinast við að selja fyrst þau merki sem verst ganga, það er að segja Jaguar og Land Rover. En þar sem þessi merki, einkanlega þó Jaguar,
hafa gengið illa undanfarin ár þá þykir fjármálafræðimönnum ekki líklegt að þau muni hvort um sig eða bæði saman gefa Ford mikið í aðra hönd.
http://www.fib.is/myndir/Volvo-s80-2006.jpg Jaguar - rekstrartap ár eftir ár.

Aðra sögu er hins vegar að segja af Volvo. Þar er allt í góðum gír, Volvo fólksbílar seljast betur en nokkru sinni fyrr og góður hagnaður er af rekstrinum. Fjármálafjölmiðlar telja að verðmæti Volvo sé um fimm milljarðar dollara en þeir telja jafnframt að sá verðmiði sem Ford muni setja á fyrirtækið verði mun hærri en það.

En er Volvo til sölu? Stjórnendur móðurfyrirtækisins, Ford neita því að svo sé en Mark Fields forstjóri Ford í Bandaríkjunum sagði þó í vikunni að ef nauðsynlegt yrði að
selja húsgögnin til að bjarga húsinu undan hamrinum þá yrðu þau að sjálfsögðu seld.

Volvo - malar gull fyrir Ford.