„Neytandinn“ vill ekki sjá upplýsingar um eldsneytisverð á Netinu

http://www.fib.is/myndir/N1logo.jpg

Á föstudaginn var birtist hér á fréttavef FÍB frétt þess efnis að gamla Esso sem nú heitir N1 birti ekki lengur eldsneytisverð á heimasíðu fyrirtækisins.

Í frétt í Fréttablaðinu í dag kemur fram að framkvæmdastjóra (stýru) neytendasviðs fyrirtækisins finnst þetta í góðu lagi og segir: …„Þetta er ekki það sem neytandinn vill sjá á heimasíðunni,“ Hún segist ennfremur ekki telja að þessi fjarvera verðupplýsinga sé til nokkurra minnstu óþæginda fyrir viðskiptavini sína, nema síður sé. Þeir nefnilega kanni verðið með því að fara á sína sölustaði og sölustaði keppinautanna í nágrenninu. Það var og! Skyldi fólki finnast það einfaldari aðferð við verðsamanburð en að sækja þessar upplýsingar um Netið?

Upplýsingar framkvæmdastjórans um Internetnotkun almennings og hvað fólk vilji hafa á heimasíðum olíufyrirtækjanna eru óneitanlega byltingarkenndar og það sem hún fullyrðir um vilja „neytandans“ og aðferðir hans við að kanna eldsneytisverð eru mikil tíðindi. Gaman væri því að framkvæmdastjórinn upplýsti hvaðan þessar upplýsingar eru komnar og hvernig þeirra hefur verið aflað. Þá væri fróðlegt að vita hvers vegna „neytandinn“ vill ekki sjá eldsneytisverðupplýsingar á heimasíðu N1. Særa þær nokkuð blygðunarkennd hans?